Helsta verkefni tjaldsvæða er að tryggja rafmagn

10.05.2022 - 10:58
Mynd: Sölvi Andrason / RÚV
Tjaldsvæðið að Hömrum við Akureyri er eitt stærsta tjaldsvæði landsins og í sífelldum vexti. Forstöðumaður Hamra segir að stærsta verkefnið fyrir komandi sumar sé að tryggja gestum aðgang að rafmagnstenglum. 

Tjaldsvæðið á Hömrum stækkar enn

Í góða veðrinu norðan- og austanlands í fyrrasumar voru tjaldsvæði víða stappfull af sólarþyrstum Íslendingum. Aldrei hafa fleiri ferðamenn gist á tjaldsvæðum Akureyrar og þá og gistinæturnar voru áttatíu þúsund. 

Þrátt fyrir mikla aðsókn gefst ferðamönnum ekki kostur á að slá niður tjaldi við Þórunnarstræti. Tjaldsvæðinu, sem hefur verið rekið þar í yfir hálfa öld, hefur nú formlega verið lokað.

Allir sem vilja tjalda á Akureyri fara því á tjaldsvæðið á Hömrum. Það var opnað um aldamótin og hefur farið sístækkandi.

Ásgeir Hreiðarsson, framkvæmdastjóri tjaldsvæðisins á Hömrum segir að svæðið þar verði stækkað enn frekar m.a. vegna lokunar tjaldsvæðisins við Þórunnarstræti. „Til þess að vega á móti því þá er verið að opna tjaldflatir aðeins fyrir norðan og bætum við okkur tveimur tjaldflötum þar.“

Gestir allt árið um kring

Ferðahegðun hefur breyst talsvert og sístækkandi hópur ferðast árið um kring á ferðavögnum, aðallega erlendir ferðamenn. Gistinætur frá áramótum á Hömrum eru orðnar um tvö þúsund.

Ásgeir segir að verkefni starfsfólksins séu talsverð önnur að vetri en að sumri.
„Þau eru kannski bara snjóruðningur og ýta bílum sem hafa fest sig og annað slíkt. En það er nú samt opið.“

Sumarið er þó tvímælalaust sá tími sem tjaldsvæðin eru mest notuð og starfsfólkið er farið að búa sig undir annasaman tíma.

250 rafmagnstenglar ekki nóg

Helsta verkefnið er að koma til móts við aukna rafmagnsnotkun tjaldgesta. Á Hömrum eru nú tvö hundruð og fimmtíu tenglar og til stendur að bæta enn aðgang að rafmagni að sögn Ásgeirs.

„Það eru að koma í nýja hlutanum tenglar og rafmagn og við vorum á síðasta sumri að bæta við tengipunktum og bætum við einhverjum tenglum en hvað nákvæmlega get ég ekki sagt til um í dag en það er alltaf verið að bæta í.“