Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Biden telur Pútín kominn í sjálfheldu varðandi stríðið

epaselect epa09936647 US President Joe Biden announces that 20 internet companies have agreed to reduce costs for low-income Americans in the Rose Garden of the White House in Washington, DC, USA, 09 May 2022.  EPA-EFE/JIM LO SCALZO
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Joe Biden Bandaríkjaforseti kveðst uggandi yfir því að Vladimír Pútín forseti Rússlands sé kominn í sjálfheldu með stríðið í Úkraínu. Biden telur hann í basli með að átta sig hvað hann skuli gera næst.

Þetta var meðal þess sem fram kom í ávarpi Bidens í gær á fjáröflunarsamkomu Demókrataflokksins í borginni Potomac í Marylandríki.

Biden staðhæfði að Pútín hefði talið að innrásin yrði til þess að rjúfa samstöðu ríkja Atlantshafsbandalagsins og Evrópusambandsins. En þvert á móti hafi innrásin orðið til að þétta raðirnar.

Bandaríkjaforseti sagði kollega sinn í Moskvu vera mjög útsmoginn mann sem sæi nú að öll sund væru lokuð í stríðinu. Því sagðist Biden nauðsynlega þurfa að átta sig hvernig bregðast skuli við þeirri stöðu.

Láns- og leiguaðstoð endurvakin 

Biden undirritaði í dag lög sem heimila láns- og leiguaðstoð við Úkraínumenn í formi vopna, vista og annars varnings. Bandaríkjamenn brugðust við með svipuðum hætti til stuðnings bandamönnum í baráttunni við öxulveldin í síðari heimsstyrjöld. 

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti þakkaði fyrir átakið og kvaðst bjartsýnn á að Úkraína hefði sigur í baráttunni við innrásarher Rússa.

Biden sagði engan tíma mega missa en hann gaf skýrt til kynna að Bandaríkjaþing skyldi samþykkja í skyndi 33 milljarða dala stuðning við Úkraínu til viðbótar því sem þegar hefur verið ákveðið.