Athugið þessi frétt er meira en 3 mánaða gömul.

Réttlætti aðgerðir í Úkraínu en lýsti ekki yfir sigri

09.05.2022 - 07:51
Mynd: EPA / EPA
Vladimír Pútín Rússlandsforseti fullyrti á ný í morgun að innrásin í Úkraínu hafi verið nauðsynleg. Þetta kom fram í ávarpi hans á Rauða torginu í Moskvu fyrir skemmstu, þar sem Rússar minnast þess að í dag eru 77 ár liðin frá sigri yfir nasistum í síðari heimsstyrjöldinni.

Pútín byrjaði ræðu sína á því að fullvissa rússneska hermenn í Úkraínu, að þeir væru að berjast fyrir öryggi móðurlandsins. Atlantshafabandalagið hafi þrengt svo mjög að Rússum að við því þurfti að bregðast. Þá sagði forsetinn að koma þurfi í veg fyrir að heimsstríð brjótist út á ný, með öllum tiltækum ráðum.

Fyrir fram var jafnvel talið að Pútín vildi nota tilefnið í dag til þess að lýsa yfir sigri í Úkraínu, þó staðan nú gefi ekki tilefni til þess.

Greinendur breska ríkisútvarpsins sem fylgdust með ræðunni segja að Pútín hafi ekki komið með neinar sleggjur í ræðu sinni, eins og sumir bjuggust við, en fór yfir það sem að hans mati réttlætti aðgerðir Rússa í Úkraínu.

Sagður ætla að líkja Rússum við nasista

Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti birti ávarp í morgun í tilefni dagsins, þar sem hann sést ganga um götur Kænugarðs og ítreka að Rússar fái ekki að nota daginn til þess að berja frekar á Úkraínu, sem hafi unnið sigur á fjandmönnum sínum í síðari heimsstyrjöldinni og muni gera það aftur nú.

Breskir fjölmiðlar fullyrða að í ávarpi í dag ætli Ben Wallace varnarmálaráðherra Bretlands að líkja framferði Rússa nú við athæfi Nasista í síðari heimsstyrjöldinni, í tilefni dagsins. Jafnframt ætli hann að segja að örlög Pútíns og helstu samverkamanna hans verði þau sömu og nasistanna.