
Mannréttindaráðið ræðir ástandið í Úkraínu
Yevheniia Filipenko, sendiherra Úkraínu hjá Sameinuðu þjóðunum í Genf, óskaði eftir aukafundi ráðsins. Fulltrúar yfir fimmtíu aðildarríkja studdu beiðnina. Hún kvaðst vonast til þess að fundurinn sendi skýr skilaboð til Vladimírs Pútíns Rússlandsforseta um hversu einangruð rússneska stjórnin væri orðin á alþjóðavettvangi. Vonandi yrði fast kveðið að orði í gagnrýninni á Rússa fyrir mannréttindabrot þeirra í Úkraínu og stríðsglæpina sem þeir fremdu daglega á almennum borgurum.
Charles Michel, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, kom óvænt til Úkraínu í dag í tilefni dags Evrópu. Hann sagði í ávarpi að Kremlverjar vildu ganga milli bols og höfuðs á þrá Ungverja eftir frelsi og lýðræði en hann væri sannfærður um að þeim ætti ekki eftir að takast það ætlunarverk.
Michel bætti við að Evrópusambandið ætti eftir að styðja við Úkraínu eins lengi og á þyrfti að halda til að byggja upp nútímalegt lýðræðisþjóðfélag.