Varð sérfræðingur í sólskinstómötum á mettíma

Mynd: Magnús Atli Magnússon / RÚV

Varð sérfræðingur í sólskinstómötum á mettíma

08.05.2022 - 20:50

Höfundar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir er alin upp á Snæfellsnesi á bænum Dalsmynni í Eyja- og Miklaholtshreppi. Amma hennar var mikil garðyrkjukonan og þær voru mikið saman. Engu að síður valdi hún sér hugvísindanám og lærði heimspeki, siðfræði, miðausturlandafræði og arabísku svo eitthvað sé nefnt. Hana langaði samt alltaf í Garðyrkjuskólann og lét að lokum slag standa.

„Ég fór í heimsókn þangað á sumardaginn fyrsta 2018 og þá vissi ég að ég ætlaði að skrá mig,“ segir Halla. „Draumurinn var að vera með eigin rekstur á einhverjum tímapunkti. En svo var ég bara búin að vera viku í skólanum þegar mér bauðst í gegnum vinafólk eigendanna hér að að koma og skoða. Og þá hélt ég að stöðin væri seld. En þá var hún bara enn til sölu og kominn nýr lánamöguleiki hjá Byggðastofnun þannig ég áttaði mig á að þetta væri raunhæft. Þá rúllaði boltinn bara af stað og það var ekki aftur snúið.“

Halla er að tala um garðyrkjustöðina Gróður á Flúðum sem hún hefur nú átt og rekið í næstum heilt ár. „Ég held ég hafi bara ekki stoppað síðan. Mér líður eins og ég hafi komið hingað í síðustu viku.“

Í vetur var hún með sex starfsmenn í vinnu og nú er að bætast í hópinn fyrir sumarið. Þegar uppskeran á kálinu hefst verða þeir 12-13. Sólskinstómatar eru flaggskip stöðvarinnar en þetta er líka eina stöðin sem ræktar sellerí af einhverju magni fyrir verslanir.