Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Salman konungur Sádí Arabíu á sjúkrahúsi

08.05.2022 - 08:07
epa05845645 Saudi Arabia's King Salman bin Abdulaziz Al Saud attends a banquet hosted by Japanese Prime Minister Shinzo Abe (not pictured) at the Prime Minister's official residence in Tokyo, Japan, 13 March 2017.  EPA/Tomohiro Ohsumi / POOL
Salman, konungur Sádi-Arabíu. Mynd: EPA - BLOOMBERG POOL
Salman bin Abdulaziz Al Saud, konungur Sádi-Arabíu var lagður inn á sjúkrahús í gær af ótilgreindum ástæðum. Ríkisfréttamiðill konungdæmisins greindi frá þessu í morgun en allt kapp hefur verið lagt að þagga niður vangaveltur um bága heilsu konungsins sem tekinn er að reskjast.

Salman konungur er 86 ára og tók við völdum í þessu auðugasta ríki Arabaheimsins í janúar 2015. Hann er 25. sonur Abdulaziz konungs eða Ibn Saud sem réði ríkjum í Sádí Arabíu frá 1932 til 1953.

Salman var ríkisstjóri í Riyadh um áratugaskeið uns hann varð varnarmálaráðherra 2011. Ári síðar var hann tilnefndur krónprins og tók við völdum eftir andlát Abdullah bróður síns.

Í opinberri tilkynningu segir heilsufar konungs sé til rannsóknar á sjúkrahúsi kenndu við Faisal konung í hafnarborginni Jeddah. Það er harla fátítt að konungdæmið greini frá heilsufari einvaldsins.

Til að mynda var lítið gert úr þeim vangaveltum að Salman hygðist árið 2017 stíga til hliðar svo sonur hans Mohammed bin Salman krónprins kæmist að.

Krónprinsinn hefur í raun ráðið lögum og lofum í Sádí Arabíu undanfarin ár. Hann hefur undirbúið efnahagsáætlun um hvernig bregðast skuli við samdrætti í eftirspurn eftir olíu. Einnig hafa kvenréttindi verið aukið í landinu.