Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Nýr leiðtogi Hong Kong kjörinn í morgun

08.05.2022 - 00:45
epa09925898 Hong Kong's former Chief Secretary John Lee Ka-chiu (C) visits the West Kowloon Cultural District in Hong Kong, China, 04 May 2022. Lee, the sole candidate for the 08 May 2022 Hong Kong Chief Executive elections with Beijing’s backing, has secured over 700 nominations from the 1,500-strong election committee set to elect him.  EPA-EFE/JEROME FAVRE
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Fyrrverandi öryggisráðherra sem fór fyrir róttækum aðgerðum gegn mótmælendum úr hópi lýðræðissinna í Hong Kong var kjörinn æðsti embættismaður Kínastjórnar í borginni í morgun.

John Lee varr einn í framboði og tekur því við af Carrie Lam en hann verður fyrsti löggæslumaðurinn til að fara með æðstu stjórn í Hong Kong. Lam var kjörin til æðstu stjórnar borgarinnar árið 2017.

Afar róstusamt hefur verið í borginni undanfarin ár og fjöldi aðgerðasinna sem barist hafa fyrir lýðræðisumbótum handtekinn og dæmdur til fangavistar.

Æðsti leiðtogi borgarinnar er valinn af sérstakri kjörnefnd 1.463 mann eða 0,02 prósentum íbúanna. Nefndin er saman sett af blóma stjórnmála- og viðskiptaelítíunnar, sérvölnum vegna tryggðar sinnar við stjórnvöld í Kína.

Einfaldur meirihluti nægði til að tryggja kjör Lees sem var einn í framboði. Á sjöunda þúsund lögreglumanna var til reiðu svo tryggja mætti að kosningarnar gengju snurðulaust fyrir sig. 

Lee er dyggur stuðningsmaður þeirra öryggislaga sem Kínastjórn setti til höfuðs mótmælendum og þeirrar stefnu að föðurlandsvinir skuli ráða Hong Kong. Michael Tien, kaupsýslumaður í Hong Kong, segir stjórnina í Peking þekkja Lee vel og treysta honum í hörgul.

Lai Tung-kwok, fyrrverandi öryggisráðherra segir Lee hafa staðist allar prófraunir Kínverja. Honum verði treyst til að ryðja öllum hindrunum sem fyrir kunna að verði í rekstri og stjórnun borgarinnar úr vegi. 

Fréttin var uppfærð klukkan 6:06.