Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Heimild til þungunarrofs mótmælt í Mexíkóborg

epa09932781 People march during an anti abortion demonstration in Mexico City, Mexico, 07 May 2022. Thousands of anti abortion Mexicans marched in the capital to demand the prohibition of the interruption of pregnancy in the midst of the debate in the United States, whose Supreme Court could reverse this historic right.  EPA-EFE/Sashenka Gutierrez
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Þúsundir manna flykktust út á götur Mexíkóborgar í gær og kröfðust afnáms laga sem heimila þungunarrof. Mótmælin voru að áeggjan kaþólsku kirkjunnar og nokkurra íhaldssamra hópa.

Þungunarrof er þegar löglegt í sjö af 32 fylkjum Mexíkó auk þess sem hæstiréttur landsins afglæpavæddi það með úrskurði árið 2021. Höfuðborgin var brautryðjandi í þessum efnum fyrir fimmtán árum þegar þungurrof var heimilað allt að tólftu viku meðgöngu.

Mótmælendur gengu, margir hvítklæddir, um helstu götur Mexíkó-borgar með mótmælaspjöld í höndum. Fremst í göngunni gaf að líta stóran borða með áletrun sem sagði að lífið væri grundvallarmannréttindi.

Til stóð í síðustu viku að fylkisstjórnin í Guerrero-ríki rökræddi og greiddi atkvæði um að afglæpavæða þungunarrof. Ákveðið var að fresta umræðum til 11. maí eftir hörð mótmæli ýmissa trúarhópa.

 

 

Úrskurðir hæstaréttar frá í september á síðasta ári heimila konum sem búa þar sem þungunarrof er óheimilt að leita eftir því þar sem það er löglegt.

Reglum um þungunarrof er háttað með ýmsum hætti í latnesku Ameríku. Aðgerðin er algerlega óheimil í El Salvador, Hondúras, Níkaragva, á Haíti og Dómíníska lýðveldinu. Hins vegar er þungunarrof fullkomlega löglegt í Kólumbíu, Úrúgvæ, Argentínu, á Gvæjana og Kúbu.