
Ætla að hætta að versla rússneska olíu
Ekki kom fram í yfirlýsingunni nákvæmlega með hvaða hætti innflutningsbanninu verður komið á. Þar segir þó að þetta sé nauðsynlegt skref til þess að draga úr mætti rússneska hagkerfisins og þar með hersins.
Bandaríkin hafa sjálf bannað innflutning rússneskrar olíu enda ekki flutt hana inn í jafnmiklu magni og Evrópuríkin sem eiga aðild að félagsskapnum. Auk Bandaríkjanna eru G7-ríkin Frakkland, Þýskaland, Kanada, Ítalía, Japan og Bretland.
Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, ávarpaði Þjóðverja í dag og sagði Þýskaland standa með Úkraínumönnum en að Þjóðverjar gætu ekki orðið við hverri einustu kröfu. Sagðist Scholz hafa svarið þess eið að koma í veg fyrir að Þjóðverjar yrðu fyrir nokkru tjóni og að hann gæti því ekki gripið til aðgerða sem myndu skaða Þjóðverja meira en Rússa.
Kanslarinn útskýrði þessi ummæli sín ekki nákvæmlega. Undanfarna daga og vikur hefur stjórn hans þó sætt gagnrýni fyrir tafir við vopnasendingar til Úkraínu. Þá hefur Þýskalandsstjórn sömuleiðis ekki getað fallist á algjört bann við innflutningi á rússnesku jarðgasi enda flytur ríkið inn afar mikið gas.