Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.
Börn, konur og aldraðir farnir frá Mariupol
07.05.2022 - 19:04
Búið er að koma öllum konum, börnum og eldra fólki úr hópi óbreyttra borgara frá Azovstal stálverksmiðjunni í Mariupol. Ráðgjafi forseta Úkraínu telur Rússa leggja allt kapp á að ná verksmiðjunni fyrir sigurdaginn níunda maí, sem táknrænan áfanga til að státa sig af.
Óbreyttir borgarar hafi verið fluttir í nokkrum hópum frá Azovstal-stálverksmiðjunni í Mariupol undanfarna daga. Rússar hafa setið um verksmiðjuna, sem hefur verið síðasta vígi borgarinnar sem ekki er fallið.
Iryna Vereshuk varaforsætisráðherra landsins tilkynnti í yfirlýsingu á samfélagsmiðlum í dag að nú hefði tekist að ná öllum konum, börnum og eldra fólki úr verksmiðjunni. Síðast var talið að 200 óbreyttir borgarar væru í verksmiðjunni, auk hermanna.