Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

„Ætti að vera hægt að skila til baka til samfélagsins“

07.05.2022 - 23:00
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Formaður Neytendasamtakanna segir að stórfyrirtæki á matvælamarkaði þurfi að sýna samfélagslega ábyrgð og skila til baka til samfélagsins, í stað þess að greiða eigendum milljarða í arð. Formaður Starfsgreinasambandsins segir að verkalýðshreyfingin eigi að beita sér fyrir verðlækkunum til neytenda.

Mjólkin hækkað um tíkall frá því í apríl

Innkaupakarfan er orðin töluvert dýrari en áður. Verð á grænmeti hækkaði um 3% í apríl og verð á mjólkurvörum um 4-6%. Til dæmis hefur mjólkurlítrinn hækkað um nærri tíu krónur á einum mánuði.

Á sama tíma eru stærstu fyrirtækin á matvælamarkaði að greiða út arð til eigenda. Hagar, sem reka meðal annars Hagkaup og Bónus, greiddu hátt í 2,3 milljarða í arð, og Festi, sem rekur meðal annars Krónuna, 1,6 milljarða. 

Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, segir að við þær aðstæður sem eru í samfélaginu núna þurfi allir að leggjast á eitt. „Við þurfum öll að sýna samfélagslega ábyrgð, og ekki síst stjórnendur fyrirtækja sem hafa verið að skila margföldum hagnaði á við undanfarin ár vegna mikillar veltuaukningar í covid,“ segir Breki. Hagnaðurinn og arðgreiðslurnar bendi til þess að ekki sé þörf á miklum verðhækkunum. „Það ætti að vera borð fyrir báru að skila einhverju til baka til samfélagsins.“

Samfélagsleg ábyrgð í orði en ekki á borði?

Bæði Hagar og Festi segjast leggja mikið upp úr samfélagslegri ábyrgð fyrirtækjanna.

Á heimasíðu Haga segist fyrirtækið leggja áherslu á að hafa „jákvæð áhrif á umhverfi og samfélag“. Hagar leggi „samfélaginu lið fyrst og fremst með því að bjóða neytendum hagstæðustu kjör hverju sinni.“

Festi segist leggja sig fram „um að vera traustir þátttakendur í samfélaginu,“ og bera „virðingu fyrir viðskiptavinum [sínum] og leggja allt kapp á að veita þeim framúrskarandi vörur og þjónustu á sanngjörnu verði.“

Breki segir að þetta megi ekki vera orðin tóm. „Samfélagsleg ábyrgð þarf að vera í verki en ekki bara í orði.“

Verkalýðsfélögin eigi að beita sér fyrir verðlækkunum

Vilhjálmur Birgisson, formaður Starfsgreinasambandsins, segir að fyrirtækin verði að axla þessa samfélagslegu ábyrgð með því að draga úr verðhækkunum til neytenda. Verkalýðsfélögin eigi að beita sér fyrir þessu, enda eiga lífeyrissjóðir stærstan hluta þessa fyrirtækja, eða um 70%. 

Vilhjálmur bendir ennfremur á að flutningskostnaður hefur hækkað gríðarlega undanfarið, sem hafi einnig áhrif á verðlag. Á sama tíma sé Eimskip að skila miklum hagnaði og greiða um 2,5 milljarða í arð til eigenda - sem aftur eru að stórum hluta lífeyrissjóðir.