Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Aðhefst ekki vegna niðurfellingar kynferðisbrotamáls

07.05.2022 - 16:50
Mynd með færslu
Skúli Magnússon, umboðsmaður Alþingis. Mynd: RÚV
Umboðsmaður Alþingis telur ekki ástæðu til að gera athugasemd við þá ákvörðun ríkissaksóknara að fella niður kynferðisbrotamál sem komu upp árin 2011 og 2013. Saksóknari felldi málið niður þar sem það taldist ekki líklegt til sakfellis.

Kona leitaði til umboðsmanns og kvartaði yfir ákvörðun ríkissaksóknara þar sem staðfest var niðurstaða héraðssaksóknara um að fella mál hennar niður.

Konan lagði fram kærur á hendur tilgreindum mönnum vegna kynferðisbrota gegn henni á árunum 2011 og 2013.  

Umboðsmaður skoðaði rannsókn lögreglu á yngra atvikinu sem átti sér stað á þáverandi heimili konunnar.

Hann óskaði meðal annars eftir svörum frá ríkissaksóknara af hverju það hefði ekki verið rannsakað hvort amma konunnar gæti borið um atvikið eða hvort konan og sakborningurinn hefðu verið spurð nánar út í aðstæður umrætt sinn við skýrslutökur hjá lögreglu. Taldi umboðsmaður að þetta væru atriði sem hefðu mögulega getað skipt máli þegar ríkissaksóknari tók ákvörðun.

Ríkissaksóknari sagði í svari sínu til umboðsmanns að það hefði verið mat héraðssaksóknara að rannsókn málsins hefði verið nægilega lokið til að hægt væri að taka ákvörðun um saksókn.  Afstaða ákæruvaldsins hefði verið sú að frekari rannsókn væri ekki til þess fallin að breyta sönnunarstöðu málsins.

Niðurstaðan hefði verið sú að málið teldist ekki líklegt til sakfellis vegna vafa um að sakborningurinn hefði haft ásetning til kynferðisbrots. Sú niðurstaða hefði byggst á heildarmati á fyrirliggjandi sönnunargögnum. 

Umboðsmaður telur að svör ríkissaksóknara beri að túlka sem svo að frekari rannsókn á þeim atriðum sem hann hefði bent á hefði ekki breytt sönnunarstöðu málsins. Það hefði ekki verið talið líklegt til sakfellis eftir heildarmat á öllum gögnum. 

Ríkissaksóknari hefði svigrúm við ákvörðun um saksókn og því teldi umboðsmaður sig ekki hafa forsendur við þá ákvörðun að fella málið niður. 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV