Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Segir að ræða Zelensky á Alþingi gleymist ekki

06.05.2022 - 14:36
Mynd: RÚV / RÚV
„Þetta er söguleg stund í þingsal og í fyrsta skipti sem þetta gerist enda eru aðstæðurnar einstakar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, eftir ávarp Volodymyr Zelensky, forseta Úkraínu. Hún sagði afstöðu Íslendinga alltaf hafa verið skýra og fundurinn á Alþingi í dag væri vitnisburður um þann stuðning.

Zelensky hvatti Íslendinga til að halda áfram stuðningi sínum við refsiaðgerðir gegn Rússum. Engu máli skipti hversu fjölmenn eða stór þjóðina væri; allur stuðningur skipti máli. 

Katrín sagði þetta hafa verið einstakt en Zelensky vitnaði meðal annars í sameiginlega sögu landanna. „Mér fannst loka-augnablikið, þar sem allir þingmenn risu úr sætum; það gleymist ekki.“

Katrín sagði íslensk stjórnvöld allt hafa staðið föst á því að styðja efnahagsþvinganir og aðgerðir Evrópuríkja. Stuðningur Íslands hefði falist í stuðningi við mannúðaraðgerðir „svo erum við að taka við flóttamönnum og það verður áfram þörf á þessum stuðningi.“

Katrín var meðal annars á fundi í Varsjá í gær þar sem þessi mál voru til umfjöllunar „ekki síst þessi innflutningur á olíu og gasi frá Rússland,“ þar sem Katrín sagði afstöðu Íslands vera skýra.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV