Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Níundi blaðamaðurinn myrtur í Mexíkó

epa09922673 The President of Mexico, Andres Manuel Lopez Obrador, speaks during a press conference at the National Palace in Mexico City, Mexico, 02 May 2022. Lopez Obrador confirmed this Monday that he will travel to Central America -Guatemala, El Salvador, Honduras and Belize and Cuba from 05 May 2022 accompanied by the Foreign Minister and the Defense and Navy Ministers.  EPA-EFE/SHASHENKA GUTIERREZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Blaðamaður var myrtur í norðvesturhluta Mexíkó samkvæmt tilkynningum yfirvalda og hópa aðgerðasinna. Blaðamaðurinn er sá níundi úr þeirri stétt sem fellur fyrir morðingjahendi á þessu ári.

Lík blaðamannsins Luis Enrique Ramirez fannst liggjandi á malarvegi í útjaðri Culiacan höfuðborg Sinaloa-fylkis. Þar ræður glæpahringur Joaquins „El Chapo“ Guzman ríkjum og hvergi í Mexíkó er meira um ofbeldi sem tengist fíkniefnaviðskiptum.

Ramirez var dálkahöfundur við dagblaðið El Debate sem gefið er út á svæðinu og stofnandi fréttavefsíðunnar Fuentes Fidedignas. Balbina Flores, talsmaður samtakanna Fréttamenn án landamæra segir ekki fara milli mála að Ramirez hafi verið myrtur en líkami hans var vafinn í plast þegar hann fannst.

Samtökin segja Ramirez vera níunda blaðamanninn sem myrtur er í landinu það sem af er ári. Allt stefnir því í að árið verði eitt það mannskæðasta fyrir blaðamenn í Mexíkó en á síðasta ári lágu sjö í valnum.

Yfir 150 blaða- og fréttamenn hafa verið myrtir frá aldamótum í Mexíkó en óvíða er hættulegra að vera blaðamaður en þar í landi.

Bandaríkin og Evrópusambandið krefjast þess að Mexíkóstjórn tryggi öryggi blaðamanna og Andres Manuel Lopez Obrador forseti landsins heitir því að morðin verði ekki látin viðgangast án refsingar. Talið er að flest morð á blaðamönnum tengist umfjöllun blaðamanna um glæpagengin sem vaða uppi í landinu.