Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Kjörsókn hjá FG rúmlega 33 prósent á hádegi

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Þriðjungur félagsmanna í Félagi grunnskólakennara hafði tekið þátt í formannskosningu á hádegi í dag. Atkvæðagreiðslu lýkur klukkan tvö á hádegi á morgun.

Þetta kemur fram á vef Kennarasambandsins. Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambandsins var ekki með á hreinu hver kjörsókn hjá FG hefði verið í lok dags. Bilun kom upp í kerfinu á Mínum síðum sem varð til þess að félagsmenn gátu ekki greitt atkvæði á tímabili. Bilunin kom upp í nótt og stóð fram að hádegi í dag.

Frestur framlengdur í kjöri FF

Bilunin varð til þess að ákveðið var að framlengja frest til að kjósa formann Félags framhaldsskólakennara. Kosningu átti að ljúka á hádegi í dag en frestur til að kjósa hefur nú verið framlengdur fram á mánudag, 9. maí. 

Mjöll Matthíasdóttir, kennari við Þingeyjarskóla, Pétur V. Georgsson, kennari við Brekkubæjarskóla, og Þorgerður Laufey Diðriksdóttir, núverandi formaður eru í framboði fyrir Félag grunnskólakennara. Í framboði til formanns Félags framhaldsskólakennara eru þeir Guðjón Hreinn Hauksson, núverandi formaður FF og Kjartan Þór Ragnarsson, kennari við Menntaskólann í Reykjavík.

Betri þátttaka hjá FF en lakari hjá FG

Að sögn Magnúsar hefur þátttaka í formannskjöri FF verið betri í ár en í síðustu kosningum. Kjörsókn í formannskjörinu var 47 prósent í hádeginu hjá FF en 33,4 prósent hjá FG, sem er lakara en var í síðustu kosningum árið 2018. 

Magnús segir að þetta hafi verið afar skemmtileg framboð og að málefnalegar umræður hafi átt sér stað hjá báðum félögum. „Það er ánægjulegt að sjá að fólk er að leggja hjarta og sál í að þjóna félögunum. Það er mikið keppnisskap í fólki og almenn ánægja með frambjóðendur.“