Einn slasaður eftir snjóflóð á Akureyri

06.05.2022 - 15:19
Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Svan Óðinsson - RÚV
Snjóflóð féll á svæðinu fyrir ofan skíðasvæðið í Hlíðarfjalli á Akureyri um klukkan eitt í dag. Einn skíðamaður lenti í flóðinu, hann grófst ekki undir en er slasaður. Ekki er vitað um líðan mannsins að svo stöddu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra. Með manninum voru í för þrír einstaklingar sem komu honum til aðstoðar. 

Aðgerðastjórn á Akureyri var virkjuð og björgunarsveitin Súlur á Akureyri kölluð út til aðstoðar öðrum viðbragðsaðilum. Sjúkraflutningamenn voru fluttir á slysavettvang af starfsmönnum Hlíðarfjalls og bjuggu þeir um hinn slasaða sem var síðan fluttur á Sjúkrahúsið á Akureyri til aðhlynningar.

 

 

urduro's picture
Urður Örlygsdóttir