Segir ávarpið verða einstaka athöfn í þingsal

05.05.2022 - 19:37
Mynd: RÚV / RÚV
Skrifstofustjóri Alþingis segir að talsverður undirbúningur hafi verið í sölum Alþingis eftir að fyrir lá að Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, myndi ávarpa Alþingi og íslensku þjóðina í gegnum fjarfundabúnað við sérstaka athöfn í þingsal klukkan tvö á morgun.

Alþingi er 27. þjóðþingið sem forsetinn ávarpar frá innrás Rússa í landið og að auki hefur hann ávarpað ýmsar alþjóðastofnanir. Nokkrir dagar eru síðan ljóst var að forsetinn myndi ávarpa Alþingi, en það var síðan tilkynnt í dag.

„Þetta er sennilega árangur af ýmsum og mörgum samtölum,“ svarar Ragna Árnadóttir skrifstofustjóri Alþingis spurð hvernig það hafi komið til að Úkraínuforseti ávarpaði Alþingi. „Hann hefur ávarpað okkar systurþing á Norðurlöndunum og ætli röðin hafi ekki bara verið komin að okkur.“

Og hvernig fer þetta fram? „Þetta fer þannig fram að hann ávarpar þingheim í gegnum fjarfundabúnað hérna uppi í þingsal. Þetta er ekki þingfundur, þetta er einstök athöfn. Þannig að við erum ekki bundin af því formi að þetta sé þingfundur,“ segir Ragna.

Forseti Íslands, forsætisráðherra og forseti Alþingis munu síðan ávarpa Úkraínuforseta. „Þannig að þetta verður gagnvirkur fundur,“ segir Ragna.

Hún segir að fjórir til fimm skjáir verði settir upp í sal Alþingis. „Þetta er heilmikil „pródúksjón“, svo ég sletti. Þetta er mikil tækni og mikið af leiðslum þarna uppi núna.“

Þetta verður í fyrsta skiptið sem erlendur þjóðhöfðingi flytur ávarp í þingsal Alþingis. „Þannig að við höfum þurft að skoða ýmsa anga þessa máls og gera upp við okkur hvaða hefðir og venjur ættu við og einkum hvaða hefðir og venjur ættu ekki við.“

En nú er hlé á þingfundum og þingmenn staddir víða um land - eigið þið von á að flestir komi?  „Já, það verður góð mæting. Auðvitað verða einhverjir, því miður, forfallaðir en flestir geta mætt.“