
SAS segir 300 áhafnarmeðlimum upp
Flugrekstur hefur verið afar erfiður síðustu tvö ár. Flest öll flugfélög í heiminum þurftu að segja nánast öllu starfsfólki sínu upp þegar kórónuveirufaraldurinn skall á enda lömuðust flugsamgöngur á örskömmum tíma. Danska ríkisútvarpið greinir frá.
SAS sagði alls upp fimm þúsund starfsmönnum meðan á faraldrinum stóð. Yfir 500 áhafnarmeðlimir flugfélagsins völdu af sjálfsdáðum að fara í launalaust leyfi í tvö ár til að forðast uppsögn og í von um að geta snúið aftur til starfs síns þegar flugsamgöngur kæmust í eðlilegt horf. Þetta sparaði SAS launakostnað á uppsagnartímabilinu.
Nú þegar flugsamgöngur eru farnar á fullt aftur hefur 300 af þessum 500 starfsmönnum verið tjáð að þau fái ekki að koma aftur til starfa þegar leyfinu lýkur þann 1. júní næstkomandi. Starfsmennirnir fengu sent uppsagnarbréf í dag.
Ekki þörf fyrir svo marga starfsmenn
SAS vil meina að ástæða uppsagnanna sé sú að ekki sé þörf á öllu þessu starfsfólki hjá félaginu. Á sama tíma hefur SAS ráðið inn áhafnarmeðlimi til nýrra dótturfélaga sinna, Connect og Link, þar sem aðrir samningar gilda. Samkvæmt stéttarfélagi flugáhafna í Danmörku, CAU, eru kjörin töluvert lakari en það sem gengur og gerist. CAU hefur dregið SAS fyrir vinnudómstóla vegna samninganna.
SAS er í miklum fjárhagsvandræðum og hefur enn ekki náð sér á strik eftir faraldurinn þrátt fyrir milljarða aðstoð frá bæði danska og sænska ríkinu.