Mikilvægt að heyra milliliðalaust frá Úkraínuforseta

05.05.2022 - 16:20
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Forseti Alþingis segir ávarp Úkraínuforseta á Alþingi á morgun vera einstakt tækifæri til að fá upplýsingar um stöðu mála í Úkraínu.

Volodymyr Zelenskí, forseti Úkraínu, ávarpar Alþingi og íslensku þjóðina í gegnum fjarfundabúnað við sérstaka athöfn í þingsal klukkan tvö á morgun.  Alþingi er 27. þjóðþingið sem forsetinn ávarpar frá innrás Rússa í landið og að auki hefur hann ávarpað ýmsar alþjóðastofnanir.

„Það hefur verið þannig að forseti Úkraínu hefur ávarpað ýmis þjóðþing í kringum okkur og það hafa verið samræður í gangi undanfarnar vikur um hvenær væri hægt að koma þessu við varðandi Alþingi Íslendinga. Og þetta var niðurstaðan,“ segir Birgir Ármannsson, forseti Alþingis.

„Þetta er mjög óvenjulegur viðburður“

Hann segir að þarna gefist einstakt tækifæri til að fá upplýsingar um stöðu mála í Úkraínu.

„Okkur finnst mikilvægt að Alþingi fái að heyra beint og milliliðalaust frá forseta Úkraínu hvernig mál horfa við honum. Þetta er mjög óvenjulegt, vissulega. En við töldum að það væri við hæfi að efna til sérstaks viðburðar þar sem við gefum þingmönnum kost á að heyra milliliðalaust í Zelenskí.“

Hefur eitthvað þessu líkt áður gerst á Alþingi?

„Ekki með þessum hætti, þetta er mjög óvenjulegur viðburður. En við völdum þessa leið og það held ég að nái þeim markmiðum okkar að sýna úkraínsku þjóðinni virðingu á þessum erfiðu tímum.“

En núna er hlé á þingstörfum vegna sveitarstjórnarkosninga og þingmenn út um allar koppagrundir; heldurðu að þeir komi í hús til að hlusta á Zelenskí?

„Ég veit að í einhverjum tilfellum eiga þingmenn ekki kost á að koma, en langflestir munu eiga þess kost að sitja þennan viðburð. Við höfum kannað það.“