Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Börn 61% brotaþola í kynferðisbrotamálum

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Samkvæmt tölfræði lögreglunnar eru börn meirihluti brotaþola í kynferðisbrotamálum, eða 61 prósent. Hlutfallið hækkar síðan í 70 prósent þegar horft er til kynferðislegrar áreitni, brota gegn kynferðislegri friðhelgi og blygðunarsemisbrota.

Börn eru um það bil þriðjungur fórnarlamba nauðgana og er meðalaldur grunaðra 30 til 35 ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu þar sem greint er frá því að innleiða eigi sérstakt áhættumat til að tryggja betur öryggi barna gegn kynferðisbrotum fullorðinna.

Áhættumatinu er ætlað að draga fram þjónustuþörf út frá eðli og alvarleika áhættuþátta og styðja við ákvarðanir lögreglu í tengslum við forvarnir í kynferðisbrotamálum gegn börnum.

Rannsakendur og ákærendur sitja vinnustofu næstu tvo daga

Verkefnið hefur verið undirbúið af hópi sérfræðinga ríkislögreglustjóra, Mennta- og starfsþróunarseturs lögreglunnar og lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Kanadískur prófessor í réttarsálfræði aðstoðar við þróun áhættumatskerfisins.

Vinna er hafin við að þróa áhættumatið en í henni felst m.a. að rannsakendur kynferðisbrota og ákærendur innan lögreglunnar munu næstu tvo daga sitja vinnustofu um áhættumat í kynferðisbrotamálum gegn börnum.

Vinnustofan verður leidd af Stephen Hart, prófessor í réttarsálfræði við Simon Fraser háskólann í Kanada, sem er virkur í rannsóknum og þjálfun um allan heim og er einn helsti sérfræðingur um áhættumat í heiminum í dag.