Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

14 milljarða hagnaður viðskiptabankanna

05.05.2022 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd - RÚV
Samanlagður hagnaður stóru viðskiptabankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankans, nam rúmlega fjórtán milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi.

Til samanburðar var hagnaður bankanna þremur milljörðum krónum hærri á sama tímabili í fyrra. Hagnaður Arion banka á fjórðungnum nam 5,8 milljörðum króna, hagnaður Íslandsbanka 5,2 milljörðum og Landsbankinn hagnaðist um 3,2 milljarða. 

Heildar eigið fé bankanna þriggja nam samtals rúmlega 635 milljörðum króna í lok fjórðungsins og heildareignir þeirra námu 4.521 milljarði króna. Eiginfjárhlutfall þeirra var á bilinu 22,5% til 24,3% í lok fyrsta ársfjórðungs.

Arðsemi eigin fjár Arion banka var 12,7% í lok fyrsta ársfjórðungs, en í lok síðasta árs greindi bankinn frá því að arsemismarkmið bankans hafi verið hækkað úr 10% upp í 13%. Arðsemi eigin fjár Íslandsbanka var 10,2%, sem er rétt yfir 10% langtíma arðsemismarkmiði bankans. Aftur á móti var arðsemi eigin fjár Landsbankans 4,7%, sem er töluvert undir 10% arðsemismarkmiði bankans.

Í uppgjörstilkynningu Íslandsbanka segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, að unnið sé í að breyta reglum bankans varðandi verðbréfaviðskipti starfsmanna. Eins og þekkt er orðið tóku nokkrir starfsmenn bankans þátt í umdeildu lokuðu útboði þar sem 22,5% hlutur, sem var í eigu ríkissjóðs, var seldur til fagfjárfesta.