Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Hafrar og hlaupbangsar gott nesti í hjólatúrinn

04.05.2022 - 19:28
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Hjálmum prýddur og mikið til neongrænn hópur lagði hjólandi af stað frá Laugardalnum í Reykjavík í morgun, staðráðinn í að hjóla sem flesta kílómetra á næstu þremur vikum. Atvinnuhjólreiðarmaður hvetur fólk til þess að taka með sér hafrastykki og jafnvel sælgætismola í hjólatúrinn. Og ekki sé verra að detta í nokkrar teygjur á leiðarenda. 

Auk heilsubótar og bensínsparnaðar eru mikill umhverfisávinningur af hjólareiðum.

„Við erum að fjarlægja bílinn af götunni þegar við hjólum. Það er loftlagsávinningur af því að sjálfsögðu. Þetta er partur af orkuskiptunum. Og síðan er það svifrykið sem er heilmikið heilsumál og umhverfismál á sama tíma,“ segir Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar.

Atvinnufólk í hjólreiðum mælir ekki með því að hjóla langt á fastandi maga.

„Það skiptir öllu máli að vera með orku í maganum ef maður ætlar að hjóla einhverjar vegalengdir,“ segir Ingvar Ómarsson hjólreiðakappi. 

Tekurður nesti?

„Já, ég er alltaf með eitthvað í vösunum. Ég er alltaf með eitthvað gott, orkugel eða eitthvað svoleiðis. Stundum er maður með hafrastykki. Þegar ég er að hjóla á Spáni í æfingaferðum þá er ég með góðan poka af Haribo-gúmmíi. Klikkar ekki!,“ segir Ingvar. Að hjólatúr loknum mælir Ingvar með því að teygja.