Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ein best heppnaða hernaðaraðgerð síðari heimsstyrjaldar

Mynd með færslu
 Mynd: Warner Bros
Hvað eiga Adolf Hitler, heimilislaus maður sem lést eftir að hafa innbyrt rottueitur, augnhár og Ian Flemming, höfundur James Bond, sameiginlegt? Þau koma öll við sögu í hernaðaraðgerð sem er talin ein sú best heppnaða í sögu síðari heimsstyrjaldarinnar. Nýlega var frumsýnd bíómyndin Operation Mincemeat, sem byggist á þessari sögu. Þó skiptar skoðanir séu á því hvort hernaðaraðgerðin breytti miklu um framgang heimsstyrjaldarinnar á hún alveg skilið að vera rifjuð upp.

  • Umfjöllunin hér að neðan er úr Heimskviðum. Þáttinn má hlusta á hér að ofan. 

Þegar spænski sjómaðurinn José Antonio Rey María ýtti úr vör frá smábænum Punta Umbria við strendur Andalúsíu að morgni 30. apríl árið 1943 gerði hann sér eflaust ekki í hugarlund að leiðangur hans ætti eftir að reynast sögulegur. Hann ætlaði einfaldlega að freista þess að veiða sardínur þarna úti fyrir suðvesturhluta Spánar

Síðari heimsstyrjöldin var sannarlega í algleymingi á þessum tíma. Stjórnvöld á Spáni höfðu skilað auðu, lýst yfir hlutleysi í heimsstyrjöldinni. Flest voru þó meðvituð um stuðning þýskra stjórnvalda við spænska hæstráðandann Francisco Franco á meðan á borgarastyrjöldinni stóð á Spáni fyrir seinna stríð. 

Það er alls óvíst hvort sjómaðurinn José Antonio Rey María var að velta fyrir sér framgöngu styrjaldarinnar, mögulegum sardínufeng eða bara einhverju allt öðru þegar hann varð var við eitthvað fljótandi í sjónum. Og það var ekki nein sardína. Þetta var maður sem augsýnilega var látinn, hann flaut á vatnsyfirborðinu á grúfu, með andiltið ofan í sjónum. Fleiri voru á veiðum í kringum Rey María og fljótlega söfnuðust saman fleiri smábátar í kringum hinn óvænta líkfund. Enginn þeirra var neitt sérlega áhugasamur um að drösla líkinu upp í bátinn til sín og kannski var gamla reglan „sá á fund sem finnur“ höfð þarna að leiðarljósi því það kom í hlut Rey María að koma hinum látna um borð í fleytuna sína Önu og sigla með hann til lands. 

Þar var lögreglunni gert viðvart og spænska lögreglan fór umsvifalaust í það verk að reyna að bera kennsl á manninn. Í fórum hans fundust skilríki sem sögðu að hinn látni hefði verið majór í Konunglega breska landgönguliðinu, hann héti William Martin. Í fórum hans fannst einnig ljósmynd af unnustu hans, kvittun fyrir kaupum á trúlofunarhring, leikhúsmiði og síðast en ekki síst skjöl sem merkt voru leyndarmál. Það sem spænska lögreglan vissi ekki var að líkið af hinum meinta William Martin var hluti af hernaðaraðgerð sem var ætlað að blekkja Þjóðverja. 

Mennirnir hittast í Casablanca

Þetta var sem fyrr segir í apríl árið 1943. Síðari heimsstyrjöldin hafði þarna staðið yfir í vel á fjórða ár. Eftir góðan árangur herja bandamanna í Norður-Afríku þurfti að leggjast yfir kortið að næsta skotmarki á yfirráðasvæði öxulveldanna í norðri, Þýskalands og Ítalíu. Það voru tveir möguleikar á teikniborðinu, annars vegar var að ráðast inn á ítölsku eyjuna Sikiley. Yfirráð yfir eyjunni myndu ekki bara tryggja hernaðarlega mikilvæg yfirráð yfir sjóleiðinni yfir til Miðjarðahafsins, heldur einnig auka möguleika á innrás á meginland Evrópu sunnan frá, upp Ítalíuskagann. Hinn innrásarmöguleikinn sem var á teikniborðinu var að ráðast inn í Grikkland og inn á Balkanskagann og króa þannig þýskt herlið af á svæðinu milli herja Breta og Bandaríkjamanna. 

Mynd með færslu
 Mynd: Kiljan - RÚV
Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands.

Eins og þegar þarf að taka stórar ákvarðanir hittast mennirnir til skrafs og ráðagerða. Að þessu sinni var engu líkara en að kvikmyndasagan hefði verið fundargestum innblástur, hótel í Casablanca í Marokkó varð fyrir valinu.

Ekki ómerkari menn en Winston Churchill, forsætisráðherra Bretlands, Franklin D. Roosevelt, forseti Bandaríkjanna, þáverandi hershöfðinginn og verðandi forseti og forsætisráðherra Frakklans, Charles de Gaulle og fleiri góðir menn. Jósef Stalín, leiðtogi Sovétríkjanna, boðaði forföll. Hann hafði í nógu að snúast heima fyrir þar sem orrustan um Stalíngrad stóð enn.

Margar ákvarðanir voru teknar á þessum fundi sem sneru aðallega að næstu skrefum í stríðsrekstrinum. Og þar var líka ákveðið að ráðast á Sikiley. Aðgerðin bar yfirskriftina Operation-Husky, Husky-aðgerðin. 

Casablanca-fundurinn fór fram í janúar og ákveðið var að Husky-aðgerðin ætti að vera komin til framkvæmda ekki síðar en í júlí sama ár, 1943. Svo nú var komið plan til að hrinda í framkvæmd. 

Mincemeat-, Barclay- og Husky-aðgerðirnar

Stríðsrekstur er stundum eins og póker. Nema það deyja mun færri við pókerborðið. Þegar áform liggja fyrir um að ráðast inn í land hlýtur að vera grunnmarkmið þeirra sem hyggja á innrás er að innrásin komi á óvart. Að óvinaherinn nái ekki að vígbúast og undirbúa sig eftir öðrum leiðum. Hluti af Husky-áætluninni sneri að því að villa um fyrir öxulveldunum. Láta þau halda að Balkanskagi væri næsta skotmark, en ekki Sikiley. Sú aðgerð, undiraðgerð Husky-áætlunarinnar, var kölluð Operation Barclay, Barclay-aðgerðin. 

epa03298959 (FILE) An undated file photograph shows the leader of the National Socialist German Workers Party Adolf Hitler gesturing during a speech. Reports on 07 July 2012 state that Adolf Hitler personally intervened to prevent a Jewish comrade and
 Mynd: EPA - DPA
Adolf Hitler.

Adolf Hitler var fyrir afar áhyggjufullur yfir mögulegri innrás á Balkanskaga. Svæðið hafði reynst þýska hernum mikilvæg uppspretta kopars og olíu, svo fátt eitt sé nefnt. Og það var ekkert lítið sem bandamenn lögðu á sig til að láta Hitler halda að Balkanskagi væru næstur á innrásardagskránni, bandamenn settu upp herstöðvar í Kaíró í Egyptalandi og komu líka upp alls konar hergögnum í Sýrlandi. Grískir túlkar voru munstraðir til leiks og her bandamanna birgði sig vel upp af grískum gjaldmiðli og landakortum af Grikklandi. 

Þið munið að við erum núna komin í Barclay-aðgerðina, sem var hluti af Husky-aðgerðinni. Við skulum flækja þetta aðeins frekar og beina núna sjónum okkar að Operation Mincemeat, Mincemeat-aðgerðinni. Mincemeat er einhvers konar kjöthakk, eða fylling í breskar bökur. En það er kannski aukaatriði í umfjöllun um aðgerðina. Hún var hluti af Barclay-aðgerðinni, sem muniði, snerist um að villa um fyrir Hitler og öxulveldunum og láta þau halda að innrás á Balkanskaga væri yfirvofandi. 

En sem sagt Mincemeat-aðgerðin. Nú erum við loksins komin að aðgerðinni sem skráði Rey María á spjöld sögunnar, eins og áður var getið. Spænska sjómanninn sem fann fljótandi lík. 

Mincemeat-aðgerðin á hvíta tjaldið

Þessi áhugaverða saga, Mincemeat-aðgerðin, er söguþráður nýrrar myndar sem heitir einfaldlega Operation Mincemeat og rataði nýlega í kvikmyndahús hér heima. 

Með aðalhlutverkin fara þeir Colin Firth og Matthew Macfadyen, sem flest þekkja líklega best sem tengdasoninn Tom Wambsgans úr sjónvarpsþáttunum Succesion. 

Hann fer í myndinni með hlutverk Charles Cholmondeley, hermanns í flugher Breta sem munstraður var í M15, leyniþjónustu Bretlands sem hafði innanríkismál á sinni könnu. 

Colin Firth leikur í myndinni Ewen Montagu. Sá var lögfræðingur og ráðgjafi Englandskonungs, sem þá var Georg sjötti. Það er reyndar gaman að geta þess að Colin Firth hefur einmitt sjálfur leikið Georg sjötta. Það gerði hann eftirminnilega í kvikmyndinni The King's Speech og fékk meira að segja Óskarsverðlaun fyrir. 

En í nýju myndinni leikur Colin Firth sem sagt ráðgjafa konungsins og lögmann sem hafði boðið leyniþjónustu Bretlands krafta sína þegar stríðið brast á. 

Þeir Cholmondeley og Montagu kokkuðu upp planið, sem var einfaldlega að koma látnum manni fyrir við strendur Spánar.

Maðurinn átti að vera dulbúinn sem látinn hermaður og átti að hafa í fórum sínum ýmis skjöl sem gæfu til kynna að árás bandamanna á Balkanskaga væri næst á dagskrá.

Ástæðan fyrir því að strendur Spánar urðu fyrir valinu er sú að þrátt fyrir áðurnefnt hlutleysi Spánar í heimsstyrjöldinni var það alkunna að stjórnvöld á Spáni deildu reglulega afritum af skjölum og pappírum sem þeir komust yfir með þýsku leyniþjónustunni. Það er að segja áður en skjölunum var skilað aftur til þeirra sem áttu þau. Og það var það sem þeir Cholmondeley og Montagu treystu á. Að fölsuðu skjölin með uppkokkuðu áformunum myndu örugglega skila sér til Hitlers og félaga. 

Planið var ekki gripið úr lausu lofti. Það byggðist á silungs-minnisblaðinu, the trout-memo. Þið haldið líklega að ég sé að búa öll þessi nöfn til, en svo er í alvörunni ekki. Silungs-minnisblaðið var skrifað árið 1939 af enn einum hátt settum liðsmanni bresku leyniþjónustunnar. Minnisblaðið er í 54 liðum þar sem tíunduð er aðferðafræði við að blekkja andstæðinginn með ýmsum tiltækum ráðum, svona alveg eins og silungsveiðimaður reynir að leggja flugur og net fyrir bráð sína.

Við skulum koma stuttlega aftur við í kvikmyndasögunni. Leyniþjónustumaðurinn sem skrifaði silungs-minnisblaðið naut liðsinnis aðstoðarmanns síns að mjög miklu leyti. Aðstoðarmaðurinn hét Ian Flemming. Já einmitt sá Ian Flemming, maðurinn sem bjó til James Bond. En Silungs-minnisblaðið, úr smiðju meðal annars höfundar James Bond, var sem sé til hliðsjónar þegar þeir Cholmondeley og Montagu lögðu á ráðin um blekkinguna. 

Leit að líki

Og hófst þá undirbúningurinn. Eitt af fyrstu verkunum var að finna lík. Látinn mann sem hægt væri að dulbúa sem fallinn hermann. Og það gat ekki verið hvaða lík sem er, það varð eðli málsins samkvæmt að vera karlmaður. Karlmaður á herskyldualdri. Þá varð að líta út fyrir að hann hefði endað í sjónum þegar flugvél hans brotlenti. 

Þeir félagar nutu liðsinnis meinafræðings sem sagði þeim að þó að það ætti að líta út fyrir að maðurinn hafi dáið í hafinu þyrfti hann ekki endilega að hafa vatn í lungunum. Þau sem deyja í flugslysum á sjó ná ekki alltaf að drukkna. Þá taldi meinafræðingurinn sömuleiðis þeim til framdráttar að kaþólskir Spánverjar væru ekki mjög hlynntir krufningum nema í algjörum undantekningatilfellum svo dánarorsök líksins þyrfti ekki að vera nákvæmlega sú sama og hins meinta hermanns. Og það var hún sannarlega ekki. Rottueitur var banamein heimilislausa mannsins sem hvíldi í líkhúsi í Lundúnum.

Aðalleikarinn í þessarri fléttu, sem hafði enga hugmynd um þátt sinn í hernaðaraðgerðum fyrir andlátið hét, Glyndwr Michael og hafði búið á götunni í nokkurn tíma. Enginn hafði komið að vitja hins látna, hann átti enga skráða ættingja, var eiginlega bara einn í heiminum. Þeir Cholmondeley og Montagu höfðu áhyggjur af því að magur líkami flækingsins væri ótrúverðugur sem hermaður. Hann þótti engu að síður álitlegasti kosturinn og var valinn til verksins. Meinafræðingurinn féllst á að geyma líkið á meðan allur fylgibúnaður hermannsins yrði undirbúinn, en varaði við að þeir hefðu aðeins þrjá mánuði. Eftir þann tíma færi líkið að láta á sjá, þó það væri geymt í kæli. 

Eldheit ástarbréf og fölsuð leyniskjöl

Þá var hafist handa við að búa til persónulega sögu hermannsins Williams Martin. Það þufti að finna honum trúverðuga hillu í virðingarstiga breska hersins. Hann varð að vera það hátt settur að honum væri treyst fyrir leyniskjölum en ekki það hátt settur að allir ættu að þekkja nafn hans. En hann mátti ekki bara vera hermaður. Hann átti auðvitað að eiga líka eitthvað einkalíf. Því var komið fyrir ljósmynd af meintri unnustu hermannsins. Skrifstofustúlkan hjá M15, Jean Leslie, gaf ljósmynd af sér á ströndinni til verkefnisins.

Þá voru skrifuð tvö eldheit ástarbréf frá unnustunni og einnig leitað til skartgripaverslunar til að fá kvittun fyrir kaupum á trúlofunarhring.

Bréf frá föður hermannsins var sömuleiðis útbúið og einnig rukkun frá Lloyds-bankanum um útistandandi skuld. Gerðar voru tilraunir með alla þessa pappíra áður en þeir rötuðu í tösku hermannsins. Hvaða blek þoldi smá volk í sjónum, hvaða pappír var best til þess fallinn, og svo framvegis. 

Skilríki þurftu sömuleiðis að vera til staðar. Það reyndist ómögulegt að mynda líkið af Michael svo kollegi af M15, sem svipaði til hins látna, féllst á að vera andlit hans á skírteinum. Montagu sá um að ganga um með skírteinin í vasanum dögum saman til að þau fengju notað yfirbragð. Cholmondeley tók að sér að ganga í fötum sem átti að klæða líkið í, til að þau væru heldur ekki eins og þau væru nýkomin af saumastofunni. 

Og svo voru það leyniskjölin, þau sem allur leiðangurinn snerist í raun um. Skjölin voru bréf á milli háttsettra breskra og bandarískra herforingja um næstu skref og áætlanir í stríðinu. Samskipti sem áttu, þrátt fyrir að vera skrifuð undir rós, að gefa sterklega til kynna áform bandamanna um að ráðast inn í Grikkland. Þar var meðal annars að finna bréf frá flotaforingjanum Mountbatten lávarði, frænda Filippusar heitins drottningarmanns í Brelandi. 

Augnhárið örlagaríka

Klukkan var að ganga fjögur aðfaranótt 30. apríl árið 1943 þegar líkinu af hinum meinta William Martin, í fullum skrúða og með alla pappíra í farteskinu, var varpað frá borði kafbátarins Seraph, sem var hluti af konunglegum herskipaflota Breta. Honum var varpað í sjóinn hálfum öðrum kílómetra úti fyrir suðvesturströnd Spánar, eftir ítarlega útreikninga á hafstraumum og flóði og fjöru. 

Og það liðu ekki nema nokkrir klukkutímar þangað til spænski sjómaðurinn José Antonio Rey María frá Punta Umbria fann uppáklæddan flækinginn Glyndwr Michael í búningi hins tilbúna Williams Martin fljótandi á grúfu í sjónum. 

Það sem gerðist svo var í raun nákvæmlega það sem bandamenn höfðu vonast til. Líkinu var komið á land og löggæsluyfirvöldum gert viðvart. Talsverðar skeytasendingar fóru fram á milli lögreglu og heryfirvalda á Spáni um fundinn og töskuna sem hinn látni hafði meðferðis, skeytasendingar sem Þjóðverjar náðu að pikka upp og fá veður af. Það var nú reyndar ekki svo að spænsk stjórnvöld kæmu hlaupandi með skjölin til Þjóðverjanna. Þau velktust á milli hæstráðhenda í stjórnkerfinu. Þegar skjölin voru komin til Madrid jókst til muna pressan frá þýsku leyniþjónustunni Abwehr um að fá gögnin. Það varð úr að spænsk hermálayfirvöld létu til leiðast. Opnuðu innsigluð skjölin með heljarinnar umstangi, tóku ljósmyndir af öllum bréfunum og komu svo innsiglunum á sinn stað.

Þann 8.maí fékk þýska leyniþjónustan ljósmyndirnar afhentar, og þremur dögum síðar var tösku hermannsins með öllum gögnunum svo skilað til breska hersins. Það vantaði ekkert upp á handbragð Spánverjanna þegar kom að því að láta líta út fyrir að ekkert hefði verið átt við innsigli bréfanna.

Það sem staðfesti hins vegar grun, og líka von, breska hersins, að bréfin hefðu verið lesin var augnhár.

Hluti af undirbúningnum við að pakka í töskuna fyrir fljótandi hermanninn var að koma fyrir stöku augnhári inni í innsigluðum bréfunum. Augnhár sem helst í umslaginu ef það er ekki opnað, en fýkur á brott án þess að nokkur taki eftir séu bréfin opnuð. Augnhárið var á bak og burt þegar Bretarnir fengu bréfin aftur í hendur.  

Um miðjan maí mánuð fékk Winston Churchill skeyti frá leyniþjónustunni sem í stóð „Mincemeat gleypti veiðistöng, línu og sökku.“ Sem sagt, Mincemeat-áætlunin, sem byggð var á silunga-minnisblaðinu tókst. 

Ein best heppanaða hernaðaraðgerðin

Gjörningurinn tókst, en hafði aðgerðin einhver áhrif á framgöngu síðari heimsstyrjaldarinnar?

Það fer kannski eftir því hvaða sagnfræðing þú spyrð en Þjóðverjar trúðu hinum upplognu áformum. Umtalsferður herstyrkur var fluttur frá Sikiley yfir á grískar eyjar í nágrenninu til að auka viðbúnað vegna mögulegrar innrásar bandamanna. Og Hitler stóð enn í þeirri trú að innrás á Balkanskaga væri yfirvofandi eftir að bandarmenn réðust inn á Sikiley þann 9. júlí þetta örlagaríka ár 1943. Í kjölfar innrásarinnar var Mussolini steypt af stóli forsætisráðherra Ítalíu og ný ríkisstjórn hóf friðarviðræður við bandamenn. 

Mincemeat-aðgerðin þykir hafa heppnast með eindæmum vel, hefur meira að segja verið lýst sem einni best heppnuðu hernaðaraðgerð síðari heimsstyrjaldarinnar. Það sé þó kannski ekki alfarið henni að þakka að bandamenn hafi náð Sikiley á sitt vald, og þráhyggja Hitlers gagnvart utanaðkomandi ógn á Balkanskaga var tilkomin löngu áður en breski herinn fór að falsa skjöl sem gáfu til kynna yfirvofandi árás þar. 

Birta Björnsdóttir
Fréttastofa RÚV