Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Mikilvægt að huga sérstaklega að stöðu kvenna á flótta

Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Það er mikilvægt að huga sérstaklega að stöðu kvenna og stúlkna í ríkjum þar sem átök geisa, segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra sem er nýsest í stjórn UN Women á Íslandi. Samtökin hafa hrint úr vör nýrri herferð til þess að vekja almenning til umhugsunar um áhrif stríðs.

Náðir þú að pakka? Þetta er yfirskrift nýrrar fræðsluherferðar UN women á Íslandi sem á að vekja almenning til umhugsunar um áhrif stríðs á líf kvenna og stúlkna. Nú þegar mörg okkar eru farin að huga að verðskulduðu sumarfríi minnir UN Women á að það ná ekki öll að pakka niður. „Við erum að fara í frí og við eigum að njóta þess. Og það er engin ástæða fyrir fólk að vera með einhverja sektarkennd yfir því. En við eigum að sýna samstöðu hinum sem eru að leggja af stað út í óvissuna,“ segir Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrrverandi utanríkisráðherra sem í síðustu viku tók sæti í stjórn UN Women á Íslandi. 

Hún segir fulla ástæðu til að minna á stöðu fólks á flótta.  „Við höfum líklega aldrei séð jafn margt fólk á flótta í heiminum eins og akkúrat núna. Flótti er hættulegur öllum. Og það getur svo margt gerst á langri leið frá heimalandi að viðtökuríki. En fyrir konur er það sérstaklega hættulegt,“ segir Ingibjörg Sólrún. 

Á meðan karlar eru líklegri til að deyja í átökum eru konur og stúlkur líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi,  mansali og búa við viðvarandi skort. „Svo er það líka bara þjónustan við konur á flótta sem er mikilvægt að huga sérstaklega að. Þær hafa aðrar þarfir. Barnshafandi konur, konur með börn á brjósti, konur með ungabörn,“ segir Ingibjörg Sólrún. 

Hefur séð áhrif stríðs víða um heim

Auk þess að hafa gegnt embætti utanríkisráðherra 2007-2009 og borgarstjóra Reykjavíkur frá árinu 1994 til 2003 hefur Ingibjörg Sólrún starfað  sem yfirmaður hjá UN Women í Kabúl í Afganistan, sem forstjóri Lýðræðis- og mannréttindastofnunar Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og nú síðast sem staðgengill sérstaks fulltrúa António Guterres framkvæmdastjóra Sameinuð þjóðanna í Írak. 

Spurð hvers vegna hún hafi gefið kost á sér í stjórn UN Women á Íslandi svarar hún: „Ég er búin að vera rúmlega 10 ár erlendis og starfað í mörgum ríkjum þar sem átök hafa geisað. Ég hef séð hvernig stríðsátök leika þjóðir og fólk og mig langar bara að leggja mitt af mörkum hér í UN Women, vegna þess að það er svo mikilvægt að huga sérstaklega að stöðu kvenna og stúlkubarna í ríkjum þar sem átök eiga sér stað.“