Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Ísland eftirbátur varðandi aðgerðir í loftslagsmálum

Mynd: Umhverfisstofnun / Umhverfisstofnun
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, segir nauðsynlegt að gera enn betur í loftslagsmálum. Í ræðu hans á Loftslagsdeginum í Hörpu kom fram að hann ætli sér að gera upplýsingar um losunarbókhald Íslands aðgengilegar á einum stað svo hægt sé að sjá hvernig gengur að uppfylla markmið.

Guðlaugur Þór kom inn á það að samkvæmt útreikningum Umhverfisstofnunar hafi losun sem fellur undir beina ábyrgð Íslands numið 2.716 þúsund tonnum árið 2020. Það er 13% minni losun en árið 2005, sem er viðmiðunarárið fyrir skuldbindingar Íslands. Þá var losunin árið 2020 5% minni en árið 2019. En gera þurfi betur.

„Þegar rýnt er í tölurnar má sjá að stærsti samdráttarliðurinn er í vegasamgöngum og talið er að covid-faraldurinn spili þar inn í. Ísland er á eftir mörgum þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við í aðgerðum í loftslagsmálum. Við þurfum því að vinna hratt og við þurfum að vinna saman til að ná betri árangri,“ sagði Guðlaugur Þór.

Hann ítrekaði jafnframt mikilvægi þess að byggja loftslagsaðgerðir á staðreyndum úr vinnu vísindamanna. Ráðherra upplýsti það að vinna sé hafin við að greina verkefni stofnana ráðuneytisins, meðal annars til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram varðandi loftslagsmál í stjórnarsáttmála. Þá vill hann að upplýsingar um losun verði aðgengilegri almenningi, með nýju mælaborði loftslagsmála.

„Það er von mín að upplýsingar muni í framtíðinni tengjast saman á mælaborðinu þannig að hægt verði að nálgast sem mest af upplýsingum á sem einfaldastan hátt.  Við þurfum að koma skýrum skilaboðum á framfæri reglulega um hvernig gangi að ná markmiðum okkar,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.