Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Lavrov segir að snúið hafi verið útúr viðvörunum hans

epa09912023 Russian Foreign Minister Sergei Lavrov attends a joint press conference with Eritrean Foreign Minister Osman Saleh (not pictured) following their meeting in Moscow, Russia, 27 April 2022. Osman Saleh is on a working visit to Moscow.  EPA-EFE/YURI KOCHETKOV / POOL
 Mynd: EPA-EFE - EPA POOL
Utanríkisráðherra Rússlands segir vestræna fjölmiðla og stjórnmálamenn hafa snúið út úr varnaðarorðum hans um að þriðja heimsstyrjöldin gæti verið yfirvofandi.

Sergei Lavrov utanríkisráðherra Rússlands lýsti áhyggjum af heimsstyrjaldarógn eftir að Bandaríkjastjórn hét Úkraínumönnum auknum hernaðarstuðningi í heimsókn Lloyd Austin varnarmálaráðherra og Antony Blinken utanríkisráðherra til Volodymyrs Zelensky forseta Úkraínu.

Lavrov sagði í samtali við ítölsku sjónvarpstöðina Mediaset í gær að Rússar hefðu ætíð áréttað fyrir heimsbyggðinni hve brýnt það væri að koma í veg fyrir beitingu kjarnorkuvopna.

Hann rifjaði upp samkomulag Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og Mikaels Gorbachevs leiðtoga Sovétríkjanna frá 1987 og ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá því nú í janúar þess efnis að enginn væri sigurvegari í kjarnorkustríði.

Lavrov sagði Bandaríkin, Frakka og Breta ekki hafa áhuga á ráðstefnu um efni ályktunarinnar, sem Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefði stungið upp á. Hins vegar styddu Kínverjar þá hugmynd.

Lavrov kveðst því hafa hvatt ríki heimsins til að kynda ekki ófriðarbál og sagði Zelensky hafa gert þau mistök í janúar að krefjast kjarnavopna Úkraínu til handa að nýju. Eins hafi Pólverjar og Frakkar minnt á kjarnavopn sín fyrr á árinu.