Heill mánuður í logandi víti

02.05.2022 - 10:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekkert lát er á hitabylgjunni í Indlandi og í Pakistan. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að fólkið þar eigi í vændum heilan mánuð í logandi víti.

Nýliðinn aprílmánuður er sá heitasti sem mælst hefur í Indlandi og í Pakistan. Þar búa um 1600 milljónir manna.  Veðurfarið er þannig að maí og júní eru heitustu mánuðurnir. Það er ekki fyrr en monúsnrigningar byrja í júlí að það fer að kólna.   „Indverjar eru ekki óvanir því að það hlýni mjög í maí en nú gerðist það þannig að það hlýnaði mjög í mars og hélt áfram að hlýna. Það er heill mánuður í monsúnrigningarnar. Þetta er heill mánuður í viðbót í logandi víti", sagði Einar Sveinbjörnsson í morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.  Hverjar eru skýringarnar?     „Ég held að menn hljóti bara að tengja þetta við loftlagsbreytingar. Nú þegar hafa menn mælt  einnar gráðu hlýnun á síðustu áratugum. Veðurfarslíkön gera ráð fyrir að þarna eigi meðalhitinn eftir að hækka um aðrar tvær og hálfa gráðu til næstu aldamóta. Þetta er þessi birtingarmynd loftlagsbreytinga sem maður óttast hvað mest sem hefur áhrif á ekki bara lífsafkomu fólks heldur bara hvernig fólk fer að frá degi til dags".

 

 

Arnar Björnsson