Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

ESB-ríkin ekki samstíga eftir fundarhöld dagsins

02.05.2022 - 21:10
epa09922442 European Commissioner for Energy, Kadri Simson at the start of Special European Energy ministers council on Russian gas and the petrol crisis in Brussels, Belgium, 02 May 2022. Ministers will exchange views on the energy situation in the EU in the context of the war in Ukraine.This extraordinary council takes place following the latest developments, in particular the decisions recently taken by Gazprom to completely suspend the delivery of gas under its contracts with certain member states.  EPA-EFE/OLIVIER HOSLET
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Evrópusambandsríkin eru ekki samstíga í viðbrögðum við ákvörðun Rússa frá því í síðustu viku þegar Rússar skrúfaðu fyrir allt gasflæði til Póllands og Búlgaríu. Orkumálastjóri Evrópusambandsins segir að hvaða ríki sem er gæti verið næst á lista hjá rússneskum stjórnvöldum.

Orkumálaráðherrar Evrópusambandsríkja hittust á fundi í Brussel í dag til þess að ræða viðbrögð við því sem hefur verið kallað nýjasta tilraun Rússa til að sundra samstöðu í Evrópu. Á miðvikudaginn í síðustu viku stöðvaði rússneska ríkisfyrirtækið Gazprom allan flutning á gasi til Póllands og Búlgaríu. Ástæðan var sögð að ríkin neituðu að greiða fyrir gasið í rúblum. „Við Pólverjar förum fram á tafarlaust viðskiptabann á olíu og gas, á rússneska olíu og gas. Þetta er bráðnauðsynlegt skref og skyldi fylgt eftir við ákvörðun næstu refsiaðgerða,“ sagði Anna Moskwa, loftslagsmálaráðherra Póllands, fyrir fundinn í dag.

Hvaða ríki sem er gæti verið næst

Þjóðverjar eru stærstu kaupendur rússnesks gass í Evrópu, en fleiri þjóðir reiða sig mjög á orku frá Rússum. Til dæmis hafa stjórnvöld í Ungverjalandi látið í ljós að þau leggist gegn innflutningsbanni. Eftir fund orkumálaráðherranna í dag voru ekki kynntar neinar nýjar refsiaðgerðir. „Ákvörðun Gazprom, að hætta sölu á gasi til Póllands og Búlgaríu markar kaflaskil í núverandi neyðarástandi. Það er óréttlætanlegt samningsbrot á fyrirliggjandi samningum og fyrirboði um að aðrar aðildarþjóðir séu næstar í röðinni,“ sagði Kadri Simson, orkumálastjóri ESB, á fundi með fréttamönnum síðdegis í dag. Hún sagði ljóst sé að aðildarríki ESB geti ekki greitt fyrir rússneskt gas í rúblum, slíkt væri brot á refsiaðgerðum sem þegar eru í gildi gegn rússneskum stjórnvöldum.