Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Lofa meiri Reykjavík með skýra sýn sem virkar

Mynd: Birgir Þór Harðarson / RÚV
Það eru tæpar tvær vikur til sveitarstjórnarkosninga og flokkarnir reyna að ná til kjósenda með slagorðum. Sum grípa, önnur stuðla og hugsanlega slá einhver í gegn. Sérfræðingur í almannatengslum segir að kjarninn í skilaboðunum sé mikið til sá sami.

Meiri borg, Reykjavík sem virkar, Reykjavík á réttri leið, Skýr sýn fyrir Reykjavík og Sanna Reykjavík. Þetta eru nokkur dæmi um slagorð flokkanna sem bjóða fram í borginni fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar 14. maí. 

Andrés Jónsson sérfræðingur í almannatengslum segir að slagorð skipti almennt minna og minna máli í kosningum.

„Flokkarnir eru mikið að nota stefnumál, vilja kannski auglýsa eitt stefnumál í einu hverfi og annað í öðru.  Slagorðin núna eru líka svolítið svipuð. Fólk er ekki að reyna að finna upp hjólið,“ segir Andrés.