Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Yfir 3.000 fórust á leið yfir hafið til Evrópu í fyrra

Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE - ONG SOS MEDITERRANEE
Minnst 3.077 manns fórust eða hurfu þegar þau reyndu að ferðast sjóleiðina frá Afríku til Evrópu árið 2021. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Eru þetta mun fleiri en árið 2020, þegar staðfest er að 1.776 manns fórust eða hurfu á leið sinni frá Afríku.

 

Yfirgnæfandi meirihluti fólksins drukknaði eða hvarf á siglingaleiðum um vestanvert Miðjarðarhafið og miðbik þess, og svo á milli Norðvestur-Afríku og Kanaríeyja.

Í skýrslunni kallar Flóttamannastofnunin eftir aukinni aðstoð við þann mikla fjölda fólks í nauð, sem stofnar lífi sínu í hættu þegar það leggur upp í hættulega sjóferð í von um betra líf fyrir sig og sína handan hafsins. Flest eru flutt yfir hafið í upplásnum gúmbátum, sem oftar en ekki eru yfirfullir og í lélegu ásigkomulagi. Samkvæmt skýrslunni hafa 478 drukknað eða horfið á þessum siglingarleiðum það sem af er þessu ári.