Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Ekki brugðist við hættumerkjum á húsnæðismarkaði

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins segir að ekki hafi verið brugðist við hættumerkjum síðustu ára á húsnæðismarkaði.

Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins, segir stjórnvöld ekki hafa brugðist nægilega vel við þeirri stöðu sem upp er komin, sem hafi leitt til vaxandi verðbólgu.

„Við erum auðvitað að sjá skort á íbúðarhúsnæðum núna og það er að skila sér í þessu, að fasteignaverð er auðvitað að rjúka upp og hefur hækkað alveg verulega núna á síðustu mánuðum,“ segir Kristján Þórður.

Hann segir augljóst að stjórnvöld þurfi að koma inn með afgerandi hætti, með beinum stuðningi til launafólks, fasteignaeigenda og þeirra sem séu á leigumarkaði.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Grímur Jón Sigurðsson - RÚV
Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður Rafiðnaðarsambandsins.

Brýnt sé að brugðist verði við með þeim hætti að heimilin verði studd með aðgerðum og að vaxtabótakerfinu verði beitt. Það verði leitað allra leiða til að halda vaxtastigi lágu á sama tíma, þrátt fyrir að verðbólga sé að aukast.

„Það sem að blasir við við þessar aðstæður eru að vaxtakjör eru að hækka, það skilar sér svo í heimilisbókhaldið og dregur úr svigrúmi fjölskyldna til þess að reka sitt heimili.“

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að áhyggjuefnið hafi hingað til fyrst og fremst verið að innlendir þættir hafi dregið verðbólguna áfram. Annars vegar sé það þjónusta, og þá að miklu leyti launaliðurinn, en hins vegar húsnæðismarkaðurinn.

„Samtök iðnaðarins telja íbúðir í byggingu tvisvar á ári og við höfum séð það að íbúðum í byggingu hefur bara fækkað stöðugt frá árinu 2019,“ segir Sigurður.

„Við höfum bent á að ef ekki yrði brugðist við þeirri stöðu að þá gæti það leitt til mikilla verðhækkana, þannig ég sé ekki betur en að það hafi raungerst.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.