Palestínumenn mótmæla utan við Al-Aqsa að morgni föstudagsins 29. apríl 2022 Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.
Blóðug átök á Vesturbakkanum
30.04.2022 - 01:39
Ísrelskir hermenn skutu Palestínumann á þrítugsaldri til bana á Vesturbakkanum á föstudagskvöld. Nokkru áður skutu Palestínumenn öryggisvörð í ísraleskri landtökubyggð á Vesturbakkanum til bana. Hermennirnir skutu Palestínumanninn þegar til átaka kom við heimamenn í palestínska bænum Azzun, þar sem hermennirnir voru á höttunum eftir grunuðum manni. Vörðurinn var skotinn undir kvöld á föstudag, við einn af inngöngum hinnar ólöglegu landtökubyggðar Ariel.
Haft var eftir talsmanni hersins að leit stæði yfir að „hryðjuverkamönnunum“ sem drápu vörðinn en Hamas-samtakökin fögnuðu drápinu sem „hetjudáð“ og talsmaður þeirra sagði sagði það viðbragð við „árásunum á Al-Aqsa“ moskuna í Jerúsalem. Þar kom enn á ný til harðra átaka eftir morgunbænir á föstudag.
AFP hefur eftir palestínska Rauða hálfmánanum að 42 hafi meiðst í átökunum. Þá hefur fréttastofan það eftir sjónarvottum að lögregla hafi skotið gúmmíhúðuðum stálkúlum að mótmælendum.
Nær 300 Palestínumenn hafa meiðst í mótmælum, óeirðum og átökum við Al-Aqsa moskuna á síðustu tveimur vikum.