Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Björgunarsveit sótti göngumann í sjálfheldu

30.04.2022 - 22:43
Björgunarsveitarmenn á Suðurlandi sóttu göngumann í sjálfheldu í brattlendi nærri upptökum Deildarár laugardaginn 30. apríl 2022. Maðurinn var heill á húfi en nokkuð kaldur og fluttu björgunarsveitarmenn hann til byggða.
 Mynd: Landsbjörg
Björgunarsveit á Suðurlandi var kölluð út í kvöld þegar tilkynning barst frá göngumanni sem lenti í sjálfheldu í fjöllunum suður af Mýrdalsjökli. Hann hafði verið einn á gangi lengi dags í ágætu veðri en kom sér svo í sjálfheldu í brattlendi í grennd við upptök Deildarár, segir í tilkynningu frá Landsbjörg. Björgunarsveitarmenn fundu manninn laust fyrir klukkan hálftíu.

Í tilkynningu Landsbjargar segir að hann hafi verið óslasaður og í ágætu ásigkomulagi, en nokkuð kaldur. Björgunarsveitarmenn fylgdu honum gangandi niður að sexhjólum sínum og komu honum til byggða. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV