Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fimm á radarinn fyrir helgina

Mynd með færslu
 Mynd: muna

Fimm á radarinn fyrir helgina

29.04.2022 - 15:40

Höfundar

Það er venjulegur dans og línudans í Fimmunni að þessu sinni þar sem Hot Chip-bræður skríða aftur inn á radarinn, beinir í baki, og fast í kjölfarið koma Jamie xx og Leeds-ararnir í Easy Life. Síðan er það lágstemmd kerta- og kúrekastemmning frá Angel Olsen og L.A.-skvísunum í Muna.

Hot Chip - Down

Síðasta plata Hot Chip kom út 2019 en þeir bræður hafa síður en svo setið aðgerðalausir síðan. Strákarnir hafa verið að endurhljóðblanda einhvern haug saman og hvor í sínu lagi, auk þess að pródúsera plötu Ibibio Soundsystem Electricity sem hefur fengið fínar viðtökur. Nú er það löðrandi fönk því Down er fyrsta lagið sem heyrist af nýju plötu þeirra Freakout/Release sem kemur út í ágúst.


Jamie xx - Let's Do It Again

Það er nokkuð létt yfir Jamie xx í nýja laginu hans Let's Do It Again sem kom út um miðjan apríl og greinilegt að hann vill fá alla á dansgólfið. Þrátt fyrir að það sé langt frá síðustu the xx plötu og sólóplötu Jamies In Colour hefur verið nóg að gera hjá honum undanfarið við spilamennsku og gestalæti hjá The Avalanches, Neneh Cherry og fleirum.


Easy life - Beeswax

Hressu Leeds-ararnir í Easy Life slógu í gegn í Bretlandi í fyrra og jafnvel smá líka á Rás 2 með frábærum lögum af plötu sinni Life's a Beach. Nú hafa þeir sent út fyrsta lagið af nýju plötu sinni og það kveður við nýjan tón þó hljómsveitin hafi ekkert týnt karakternum í laginu Beeswax sem er í hressari kantinum.


Angel Olsen - Big Time

Tónlistarkonan Angel Olsen er búin að vera í ábreiðustuði undanfarið og breitt meðal annars yfir Karen Dalton, Men Without Hats, Lauru Branningan og Billy Idol með góðum árangri. Nú er það ný plata og titillag hennar sem hún sendir frá sér en það er kántríballaðan Big Time. Breiðskífan kemur síðan í júní.


MUNA - Kind Of Girl

Indírokk-skvísurnar í Muna koma frá Los Angeles og eru nýliðar í bransanum. Í Kind Of Girl eru þær í kúrekafíling eins og Angel Olsen en í myndbandinu sjást þær rölta skeggjaðar um eyðimörkina eins og enginn sé morgundagurinn.


Fimman á Spotiy