Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Boris Becker hlaut tveggja og hálfs árs dóm

29.04.2022 - 15:40
epa09916268 Former tennis champion Boris Becker (R) arrives at Southwark Crown Court with his partner Lilian de Carvalho in London, Britain, 29 April 2022. Becker is due to be sentenced in his bankruptcy trial. The six-time Grand Slam champion is accused of having 'acted dishonestly' when he failed to hand over trophies and medals, including his Wimbledon titles, to pay off his debts, the court heard on 21 March. Becker was declared bankrupt in June 2017.  EPA-EFE/ANDY RAIN
Boris Becker og Lilian de Carvalho, sambýliskona hans, við komuna í réttarsal í Lundúnum. Mynd: EPA-EFE
Þýski tenniskappinn Boris Becker var í dag dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir að hafa falið eignir þegar bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta fyrir fimm árum. Hann átti yfir höfði sér allt að sjö ára fangelsi.

Dómstóll í Lundúnum sakfelldi Becker fyrr í þessum mánuði fyrir að hafa reynt að koma undan umtalsverðum eignum þegar bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta. Hann var úrskurðaður gjaldþrota sumarið 2017 þegar hann stóð ekki í skilum með rúmlega þriggja milljóna punda afborgun af fasteignaláni af húsi sem hann átti á Majorka á Spáni. 

Við rannsókn á eignum Beckers kom í ljós að hann hafði ekki gert grein fyrir húseign í heimabæ hans, Leimen í Þýskalandi. Þá hafði hann ekki tilkynnt um 75 þúsund hluti sem hann átti í tæknifyrirtæki og falið fjárhæðir á bankareikningum vina og fyrrverandi eiginkvenna.

Skiptaráðandi höfðaði 24 mál á hendur Becker. Hann krafðist þess meðal annars að hann léti af hendi verðlaunagripi sem honum hlotnuðust á íþróttaferlinum, sem mætti selja og láta andvirðið renna upp í ógreiddar skuldir. Becker var sakfelldur fyrir fjögur málanna.

Boris Becker er 54 ára og á að baki glæstan feril, sem hófst þegar hann var á unglingsaldri. Á sínum tíma vann hann 49 mót, þar af sex stórmót og hlaut háar upphæðir að launum. Fyrir dómi sagði hann að verðlaunaféð, um fimmtíu milljónir dollara, hefði farið í dýran skilnað við fyrri eiginkonu hans, meðlagsgreiðslur og kostnaðarsaman óhófslífsstíl.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV