Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Átta fórust í átökum í mexíkóskri sementsverksmiðju

epa09837233 Members of the State Police guard the surroundings of the Hidalgo Stadium, before the match between Tuzos del Pachuca and Cruz Azul, in Pachuca, Mexico, 19 March 2022.  EPA-EFE/David Martinez Pelcastre
Lögreglumenn á vakt við heimavöll Cruz Azul-fótboltaliðsins, sem er krúnudjásnið í eignasafni samvinnufélagssins Cooperativa La Cruz Azul Mynd: epa
Minnst átta létu lífið og á annan tug slösuðust í blóðugum átökum stríðandi fylkinga í starfsliði mexíkóskrar sementsverksmiðju í gær. Yfirvöld í ríkinu Hidalgo greina frá þessu, samkvæmt frétt AP, en Hidalgo er um miðbik Mexíkós.

Í frétt AP eru átök gærdagsins sögð þau hörðustu sem orðið hafa á þeim tíu árum sem starfsfólk sementsverksmiðjunnar Cooperativa La Cruz Azul staðið í þessu stríði. Níu manns hafa verið handtekin vegna blóðbaðsins.

Saksóknarinn Alejandro Habib sagði á fréttafundi að um 200 manns hafi tekið þátt í áhlaupi sem gert var á verksmiðjuna. Rót átakanna er sögð liggja í meintum tilraunum fyrrverandi forstjóra til að draga sér fé frá samvinnufélaginu sem á verksmiðjuna, en það er í eigu starfsfólksins.

Forstjórinn fyrrverandi fer nú huldu höfði en stuðningsfólk hans er sagt ráða lögum og lofum í nokkrum fyrirtækjum samvinnufélagsins, þar á meðal sementsverksmiðjunni. Samvinnufélagið á talsverðar eignir auk sementsverksmiðjunnar. Þar er helst að telja úrvalsdeildarliðið Cruz Azul, sem forstjórinn flúni er sagður hafa nýtt sér til fjárdráttar og peningaþvættis. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV