Athugið þessi frétt er meira en 5 mánaða gömul.

Hrossabændur ekki sammála um blóðmerahald

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV/Landinn
Mjög skiptar skoðanir eru á meðal hrossabænda um hvort halda skuli blóðmerahaldi áfram á Íslandi eður ei. Margir hrossabændur telja þennan rekstur skaða ímynd Íslands sem upprunaland íslenska hestsins. 

Félag hrossabænda er á meðal þeirra sem veitt hefur starfshópi Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra álit um hvort halda skuli blóðmerahaldi áfram á Íslandi og ef þá í hvaða mæli. Sveinn Steinarsson formaður félags hrossabænda segir hóp hrossabænda stóran og skiptar skoðanir séu á því að taka hryssum blóð í þessu starfi.

„Félag hrossabænda hefur þegar farið til fundar við starfshóp þann sem ráðherra skipaði og skilað af sér greinargerð er varðar þetta starf og við höfum svo sem sagt það ekki bara á þessu ári heldur undanfarin ár að þessi starfsemi hafi stækkað meira en við teljum vera rétt eða æskilegt.

Hrossabændur eru kannski ekkert algjörlega sammála um hvernig á að taka á  þessu máli. Það er hluti  af okkar félagsmönnum sem er í þessu starfi þó svo að langstærsti hlutinn sé í hrossaræktarstarfi og hafi hagsmuni af því að búa til og selja reiðhestinn og sé þarafleiðandi mjög annt um orðspor Íslands bæði sem upprunalands íslenska hestsins og þá framleiðslu og það ræktunarstarf sem við viljum standa fyrir þar sem gæðin eru í fyrirrúmi."
 

 

Ólöf Rún Skúladóttir
Fréttastofa RÚV