Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Áfram óvissustig vegna landriss í Öskju

26.04.2022 - 17:47
Myndir úr Sumarlandanum 2021 https://www.ruv.is/frett/2021/07/21/fa-aldrei-nog-af-obyggdunum
 Mynd: Sturla Holm Skúlason - RÚV
Enn mælist landris við Öskju og er því óvissustig Almannavarna enn í gildi.

Náið hefur verið fylgst með landrisinu síðan það hófst í ágúst en Ríkislögreglustjóri, í samráði við Lögreglustjórann á Norðurlandi eystra, lýsti yfir óvissustigi Almannavarna vegna þessa byrjun september í fyrra.

Að sögn Bjarka Kaldalóns Friis, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands, sýna mælingar að enn sé ris inni í Öskjunni, en þó hafi hægt mikið á því frá því í september.

Landið hafði risið allt að 20 sentimetra þann 20. desember á síðasta ári en nákvæmasta mælitækið við Öskju datt út þann dag vegna hitastigs. Ekki er búist við nákvæmum mælingum fyrr en veður hlýnar enn frekar í sumar.

Bjarki segir þó vel fylgst með öðrum mælum skammt frá, sem séu þó ónákvæmari en sá sem datt út. Því sé ekki hægt að segja til um nákvæmlega hve mikið landið hefur risið nú en öruggast sé að hafa óvissustig áfram í gildi.