Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Bandaríkjamenn heita enn auknum stuðningi

epa09902822 People carry bags from a damadged apartment block in Horenka village of Kyiv area, Ukraine, 22 April 2022. Russian troops entered Ukraine on 24 February resulting in fighting and destruction in the country, and triggering a series of severe economic sanctions on Russia by Western countries.  EPA-EFE/OLEG PETRASYUK
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna og varnarmálaráðherrann Lloyd Austin heita Úkraínu og fleiri ríkjum enn aukinni aðstoð. Ætlunin er að sendiherra snúi aftur til starfa í Úkraínu. Ítrasta öryggis og leyndar var gætt við heimsókn ráðherranna.

Ráðherrarnir funduðu með Volodymyr Zelensky forseta Úkraínu í gærkvöld en þeir eru fyrstu bandarísku embættismennirnir til að sækja landið heim frá því innrás Rússa hófst 24. febrúar.

Bandarískir embættismenn greina frá því að til standi að tilnefna þá þrautreyndu Bridget Brink nýjan sendiherra Bandaríkjanna fyrir Úkraínu auk þess sem ætlunin er að sendifulltrúar snúi aftur til Lviv frá Póllandi.

Brink er nú sendiherra í Slóvakíu. Auk þess lofuðu þeir Blinken og Austin 713 milljóna bandaríkjadala aðstoð til Úkraínu, fimmtán ríkja Atlantshafsbandalagsins og annarra sem veitt hafa Úkraínu hernaðarstuðning.

Innrásin hefur vakið ugg í brjósti um að stjórnvöld í Moskvu ætli sér jafnvel enn frekari landvinninga á svæðinu. Um það bil 322 milljónir eru sérstaklega eyrnamerktar Úkraínu en frá upphafi innrásar nemur stuðningur Bandaríkjastjórnar alls 3,7 milljörðum dala.

Mikil leynd yfir heimsókn ráðherranna

Zelensky verður að ósk sinni en ráðherrarnir lofa Úkraínuher skjótri afhendingu öflugra árásarvopna. Þrátt fyrir yfirlýsingar Zelenskys um fyrirhugaðan fund voru bandarísk yfirvöld treg til að staðfesta að hann stæði til.

Fjölmiðlafólki var bannað að fylgja sendinefnd ráðherranna til Kyiv og óheimilað að fjalla um efni heimsóknar þeirra fyrr en þeir væru örugglega komnir brott frá Úkraínu.

Austin heldur nú til Þýskalands þar sem hann fundar með utanríkisráðherrum á þriðja tug ríkja og Jens Stoltenberg framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins. Ætlunin er að ræða öryggisþarfir Úkraínu til framtíðar.