
Þriðji mánuður innrásarinnar runninn upp
Rússar hafa gert atlögur að fæðingardeildum sjúkrahúsa og ráðist á almenna borgara sem leituðu skjóls í leikhúsi. Fjöldagrafir hafa fundist þar sem þúsundir almennra borgara liggja hinstu hvílu, nokkrar borgir eru herteknar og aðrar umsetnar vikum saman.
Hungur sverfur að, skortur er á lyfjum og læknisþjónustu og innviðir Úkraínu eru í molum. Innrásin hefur einnig haft veruleg áhrif á efnahag heimsins og helstu alþjóðastofnanir vara við matvælaskorti og aukinni fátækt um heiminn allan.
Friðarviðræður hafa engu skilað
Friðarviðræður Rússa og Úkraínumanna hafa engu skilað enn en Antonio Guterres aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna ætlar að þrýsta á Vladimír Pútín í vikunni.
Hann hyggst einnig halda til Kyiv til fundar við Volodymyr Zelensky Úkraínuforseta. Hann segir að Guterres hefði átt að byrja í Úkraínu og sjá afleiðingar innrásarinnar eigin augum fyrir heimsóknina til Moskvu.
Auknir landvinningar boðaðir
Einhverjir hörðustu bardagar innrásarstríðsins hafa staðið um hafnarborgina Mariupol enda mikilvægur þáttur í áætlun Rússa um frelsun austurhéraðanna og yfirráð sunnanvert við Svartahaf.
Í vikunni voru áætlanir Rússa um að taka Úkraínu yfir frá Donbas, að Krímskaga og yfir til Moldóvu en þar glíma rússneskumælandi aðskilnaðarsinnar við stjórnvöld í Transnistriu-héraði.
Engar viðræður verðir hermenn í Mariupol felldir
Í Mariupol hafast almennir borgarar og hermenn við í málmverksmiðju sem Rússar hafa gert þungar atlögur að. Zelensky segist umsvifalaust láta af friðarviðræðum við Rússa verði nokkur þeirra hermanna felldur sem enn verja verksmiðjuna.
Hið sama eigi við ákveði Rússar að efna til atkvæðagreiðslu meðal íbúa hersetnu borgarinnar Kherson um sjálfstæðisyfirlýsingu.
Zelensky kveðst reiðubúinn til beinna friðarviðræðna við Pútín Rússlandsforseta. Zelensky segir að sá sem hóf stríðið sé sá sem helst geti stöðvað það.
Mikill alþjóðlegur stuðningur
Hann sagði á blaðamannafundi í gær Antony Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna vera væntanlegan til Kyiv ásamt Lloyd Austin varnarmálaráðherra. Bandarísk yfirvöld hafa ekki enn staðfest þá heimsókn.
Ríki og ríkjasambönd hafa stutt Úkraínu fjárhagslega og útvegað margvísleg vopn og hergögn en ríki Atlantshafsbandalagsins vilja alls ekki blandast í átökin með beinum hætti.
Fjöldi þjóðarleiðtoga hefur heimsótt Úkraínu frá upphafi innrásar, forsætisráðherrar Danmerkur og Spánar, leiðtogar Eistlands, Lettlands, Litáen og Póllands og forsætisráðherra Bretlands. Eins hafa æðstu ráðamenn Evrópusambandsins heimsótt stríðshrjáð landið.
Innrásarliðið hefur undanfarið einbeitt sér að suður- og austurhluta Úkraínu en hernaðarsérfræðingar velta nú fyrir sér hve lengi stríðið kunni að vara og hver langtímaáhrif þess á afkomu heimsins verði.