Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Frakkar velja milli Macrons og Le Pen í dag

epa09904561 A woman walks next to billboards with posters of French President and candidate for re-election Emmanuel Macron and French far-right Rassemblement National (RN) party candidate for the French presidential election Marine Le Pen, in Tourrettes-sur-Loup, France, 23 April 2022. Macron will face French far-right Rassemblement National (RN) party candidate Marine Le Pen in the second round of the presidential elections on 24 April 2022.  EPA-EFE/SEBASTIEN NOGIER
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Seinni umferð frönsku forsetakosninganna fer fram í dag. Kjörstaðir í sjálfu Frakklandi voru opnaðir klukkan sex og þeim verður lokað tólf klukkustundum síðar. Valið stendur milli miðjumannsins og forsetans Emmanuels Macron og hægri mannsins Marine Le Pen.

Mjög fljótlega eftir lokun kjörstaða má búast við fyrstu tölum og útgönguspám sem yfirleitt eru nærri lokaúrslitum.

Emmanuel Macron vonast til þess að verða fyrstur franskra forseta til að ná endurkjöri síðan Jacques Chirac tókst það árið 2002. Þá hafði hann betur gegn Jean-Marie Le Pen föður Marine andstæðings Macron. Þau tókust einnig á fyrir fimm árum en þá hlaut Macron 66% atkvæða. 

Allar skoðanakannanir gera ráð sigri Macrons, allt síðan ljóst var að úrslitaeinvígið yrði milli þeirra Le Pen. Sumar hafa sýnt lítinn mun á fylgi þeirra en allar minni mun en var í kosningunum fyrir fimm árum. 

Macron er yngsti Frakklandsforseti sögunnar en hann var 39 ára þegar hann náði kjöri. Þá hét hann umbótum innanlands og eflingu Evrópusambandsins. 

Kjörstaðir hafa þegar verið opnaðir á frönsku eyjunum í Karíbahafi og á Frönsku-Gvæjana í Suður-Ameríku. Eins á svæðum sem Frakkar ráða í Kyrrahafi og Indlandshafi.

Fyrsti kjósandinn greiddi atkvæði sitt um miðjan dag í gær. Það var níræður maður á eyjaklasanum Saint Pierre et Miquelon skammt undan ströndum Nýfundnalands. Eyjarnar eru það eina sem eftir er af nýlendunni Nýja-Frakklandi. 

Tæplega 49 milljónir eru á kjörskrá en stjórnmálaskýrendur áætla að 26 til 28 af hundraði kjósenda hunsi þessa seinni umferð forsetakosninganna. Páskafrí í skólum gæti haft áhrif á kjörsókn og lítil kjörsókn getur dregið úr bilinu sem kannanir sýna að sé milli frambjóðendanna.

Vinstri maðurinn Jean-Luc Melenchon sem náði sjónarmun minna fylgi en Le Pen í fyrri umferðinni hefur ekki viljað hvetja stuðningsmenn sína til að kjósa Macron.

Hins vegar hefur hann beðið þá að veita Le Pen alls ekki brautargengi. Nái hún hins vegar kjöri yrði hún fyrsta konan til þess í Frakklandi auk þess sem enginn forseti hefur verið jafnlangt til hægri á pólitíska litrófinu og Marine Le Pen.