Athugið þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul.

Vonir dvína enn um vopnahlé yfir rétttrúnaðarpáskana

23.04.2022 - 07:36
epa09902996 Valeriy (33) unloads a car after arriving with his grandmother Varta (81) sitting in a car and other family members from Mariupol at the evacuation point in Zaporizhzhia, Ukraine, 22 April 2022. Thousands of people who still remained trapped in Mariupol and others occupied by the Russian army areas in South Ukraine wait to be evacuated to Ukraine's controlled area by buses and their own cars.  EPA-EFE/ROMAN PILIPEY
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Vonir hafa dvínað mjög um vopnahlé milli innrásarhers Rússlands og Úkraínumanna í tengslum við páskahátíð rétttrúnaðarkirkjunnar. Viðræður þess efnis milli stríðandi fylkinga runnu út í sandinn fyrir helgi.

Þriðji mánuður innrásar hefst á sunnudag en rússneski undirhershöfðinginn Rustam Minnekaev segir annað stig sérstakra hernaðaraðgerða í þann mund að hefjast.

Þannig hafa rússnesk stjórnvöld alltaf talað um innrásina. Minnekaev segir meginmarkmiðið nú að opna landveg frá Krímskaga í átt að Transnistriu í Moldóvu.

Hershöfðinginn segir að þar búi undirokað rússneskumælandi fólk. Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti sagði í ávarpi sínu í gærkvöldi að þau áform sönnuðu orð hans um að innrásin í Úkraínu væri aðeins upphafið á frekari landvinningaráformum Rússa.

Möguleiki á opnun flóttaleiða úr Mariupol

Möguleiki er á að flóttaleiðir verði opnaðar frá Mariupol síðar í dag. Þetta kemur fram í máli Irynu Vereschuk aðstoðarforsætisráðherra Úkraínu. Ætlunin er að borgarbúar safnist saman klukkan tíu að staðartíma við verslunarmiðstöð norðvestanvert í borginni.

Vereschuk hvetur almenning til að fylgjast vel með tilkynningum því umsvifalaust verði látið vita og flóttaleiðin er tryggð. 

Minnekaev segir markmiðið enn vera að ná fullum yfirráðum í Donbas og suðurhluta Úkraínu. Rússar hafa þegar hernumið verulegan hluta þeirra svæða en Úkraínumenn hafa svarið þess eið að hrekja herlið þeirra á brott.

Þó fóru þarlend stjórnvöld fram á að hlé yrði gert á vopnaviðskiptum á páskahátíð rétttrúnaðarkirkjunnar nú um helgina. Zelensky lýsti á fimmtudagskvöldið miklum vonbrigðum vegna dræmra viðbragða Rússa við því.