Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Löggjöf Evrópusambandsins ætlað að hemja alnetið

Mynd með færslu
 Mynd: Pexels
Evrópusambandið lagði í morgun lokahönd á orðalag löggjafar sem ætlað er að koma böndum yfir framferði stórfyrirtækja á alnetinu. Ætlunin er meðal annars að tryggja harðari viðurlög vegna birtingar ólöglegs efnis á borð við hatursorðræðu, upplýsingaóreiðu og ljósmynda sem sýna barnaníð.

Undirbúningur löggjafarinnar hefur staðið yfir allt frá árinu 2020 en embættismenn og þingmenn komust að samkomulagi um orðalag hennar í nótt.

Listinn yfir bannað efni er langur en Thierry Breton framkvæmdastjóra innri markaðar Evrópusambandsins segir að lögin marki tímamót fyrir íbúa þess. Nú sé liðinn sá tími að risanet- og samfélagsmiðlafyrirtækin geti látið sem ekkert sé og hegðað sér eins og þeim dettur í hug. 

Breton hefur áður líkt Internetinu við villta vestrið. Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, segir löggjöfina vernda neytendur, tryggja málfrelsi og efla möguleika margra smærri fyrirtækja.

Hún segir að það sem sé ólöglegt í raunheimi verði nú einnig ólöglegt á netinu. Búist er við að óheimilt verði að beina auglýsingum að fólki sem byggjast á gögnum um lífsskoðanir þess.

Eins verður fyrirtækjunum gert að auka gegnsæi varðandi gagnasöfnun og beitingu algríma. Listi yfir þau fyrirtæki sem teljast nægilega öflug til að löggjöfin nái yfir þau hefur ekki enn verið birtur.

Líklegt þykir að Apple, Amazon, Twitter og Microsoft verði þar á meðal. Eins fyrirtæki á borð við Google og Facebook sem hefur löngum verið legið á hálsi fyrir að fylgjast ekki nógu vel með hvað birt er á miðlum þeirra.

Samkvæmt nýju löggjöfinni ber slíkum fyrirtækjum að fjarlægja ólögmætt efni um leið og þess verður vart. Gerist notendur oft brotlegir ber fyrirtækjunum að fjarlægja reikninga þeirra. Evrópusambandið hyggst fylgjast grannt með og getur beitt þungum sektum fari fyrirtækin ekki að settum reglum.