Athugið þessi frétt er meira en 2 mánaða gömul.

Fundað um langtíma-öryggismarkmið Úkraínu

epa09901205 US Secretary of Defense Lloyd Austin meets with Prime Minister of Ukraine Denys Shmyhal (not pictured) at the Pentagon in Arlington, Virginia, USA, 21 April 2022. Shmyhal is in Washington for a series of high-level meetings seeking continued US military and financial commitments to Ukraine as the Russian invasion continues in the eastern European country.  EPA-EFE/MICHAEL REYNOLDS
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Varnarmálaráðherrar og æðstu hershöfðingjar tuttugu ríkja innan og utan Atlantshafsbandalagsins hafa þegið boð varnarmálaráðherra Bandaríkjanna um að ræða öryggisþarfir Úkraínu til lengri tíma. Fundurinn verður haldinn í Ramstein-herstöðinni í Þýskalandi næstkomandi þriðjudag.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir ætlunina að ræða og skipuleggja hvernig bandalagsríki Úkraínu geti liðsinnt með uppbyggingu hervarna eftir að innrásarstríðinu lýkur.

John Kirby, talsmaður varnarmálaráðuneytisins, staðfesti þetta í kvöld og sagði fundinn fyrst og fremst munu snúast um hvernig færa megi úkraínska herinn til nútímahorfs.

Fundurinn snúist ekki um að ríkin hyggist veita utanaðkomandi tryggingu fyrir vörnum heldur um hernaðarlega stöðu Úkraínu til framtíðar. Eins verði rætt hvort og hvernig vopnaframleiðendur geti haldið áfram útvegun vopna að stríði loknu. 

Kirby leggur áherslu á að fundurinn sé ekki að undirlagi Atlantshafsbandalagsins og varar við of mikilli bjartsýni um niðurstöður hans.

Tveir mánuðir frá upphafi innrásar

Um tveir mánuðir eru síðan Vladimír Pútín Rússlandsforseti fyrirskipaði hersveitum sínum að ráðast til atlögu gegn Úkraínu. Þarlendar hersveitir veita nú harða mótspyrnu sunnan- og austanvert í landinu en rússneskum hersveitum var stökkt á brott frá norðurhluta landsins.

Það telja hernaðarsérfræðingar hafa sett strik í reikninginn um upphafleg markmið innrásarinnar.

Um það bil 30 ríki hafa útvegað Úkraínumönnum margvísleg hergögn og annað það sem þarlend stjórnvöld telja brýnt til að halda aftur af herliði Rússa. 

Kirby segir að áframhaldandi aðstoð verði rædd á fundinum í Þýskalandi og eins hvers konar vopn unnt sé að útvega Úkraínumönnum.