Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Zelensky segir af og frá að Mariupol sé fallin

epa09900606 Ukrainian President, Volodymyr Zelensky addresses a joint press conference together with Danish Prime Minister, Mette Frederiksen (unseen), and Spanish Prime Minister, Pedro Sanchez (unseen), in the framework of their meeting in Kyiv, Ukraine, 21 April 2022. Spanish Prime Minister, Pedro Sanchez, and his Danish counterpart, Mette Frederiksen, are visiting the country to show their support to Ukrainian President, Volodymyr Zelensky, amid the Russia's invasion of the country.  EPA-EFE/MIGUEL GUTIERREZ
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Volodymyr Zelensky Úkraínuforseti segir af og frá að hafnarborgin Mariupol sé komin undir yfirráð rússneska innrásarliðsins. Vladimír Pútín Rússlandsforseti staðhæfði í gær að tekist hefði að frelsa borgina undan yfirráðum Úkraínumanna.

Rússneskt herlið hefur setið um Mariupol í nærri tvo mánuði. Harðir bardagar hafa geisað í og við borgina og hún er nánast rústir einar. Með því að tryggja yfirráð yfir borginni gætu Rússar myndað landbrú milli Krímskaga og austurhéraða Úkraínu.

Sergei Shoigu varnarmálaráðherra Rússlands tjáði Pútín í gær að borgin væri fallin í hendur innrásarliðsins. Mariupol er í sunnanverðri Úkraínu, við Azov-haf, og því hernaðarlega afar mikilvæg.

Eitt helsta markmiðið með innrásinni er að ná Luhansk og Donetsk þar sem aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússlandi lýstu yfir stofnun alþýðulýðvelda í aðdraganda innrásarinnar 24. febrúar. 

Zelensky staðhæfði í ávarpi sínu í gærkvöld að hermenn í Mariupol veittu rússneskum hersveitum enn harða mótspyrnu og því væri borgin enn undir stjórn Úkraínumanna. 

Forsetinn sagði jafnframt að Rússar hefðu hafnað vopnahléi á meðan páskar rétttrúnaðarkirkjunnar standa yfir. Páskadagur er á sunnudaginn. 

Þetta sagði Zelensky að sýndi lítilsvirðingu rússneskra leiðtoga fyrir kristinni trú og mikilvægustu trúarhátíð hennar. 

Stór fjöldagröf var uppgötvuð í þorpinu Manhush skammt frá  Mariupol í gær. Gröfin er sjáanleg á gervihnattamyndum og talið að hún geti verið allt að tuttugu sinnum stærri en fjöldagröfin sem fannst í borginni Bucha í byrjun mánaðar.

Pavlo Kyrylenko, héraðsstjóri í Donetsk, skrifaði á samfélagsmiðilinn Telegram að talið væri að gröfin geymdi líkamsleifar þúsunda almennra borgara. 

Volodymyr Zelensky kveðst enn halda í vonina um að friður komist á og að lífið hafi betur gegn dauðanum, eins og hann orðaði það í ávarpi sínu í gærkvöld.