Rússneskt herlið hefur setið um Mariupol í nærri tvo mánuði. Harðir bardagar hafa geisað í og við borgina og hún er nánast rústir einar. Með því að tryggja yfirráð yfir borginni gætu Rússar myndað landbrú milli Krímskaga og austurhéraða Úkraínu.
Sergei Shoigu varnarmálaráðherra Rússlands tjáði Pútín í gær að borgin væri fallin í hendur innrásarliðsins. Mariupol er í sunnanverðri Úkraínu, við Azov-haf, og því hernaðarlega afar mikilvæg.
Eitt helsta markmiðið með innrásinni er að ná Luhansk og Donetsk þar sem aðskilnaðarsinnar hliðhollir Rússlandi lýstu yfir stofnun alþýðulýðvelda í aðdraganda innrásarinnar 24. febrúar.
Zelensky staðhæfði í ávarpi sínu í gærkvöld að hermenn í Mariupol veittu rússneskum hersveitum enn harða mótspyrnu og því væri borgin enn undir stjórn Úkraínumanna.
Forsetinn sagði jafnframt að Rússar hefðu hafnað vopnahléi á meðan páskar rétttrúnaðarkirkjunnar standa yfir. Páskadagur er á sunnudaginn.
Þetta sagði Zelensky að sýndi lítilsvirðingu rússneskra leiðtoga fyrir kristinni trú og mikilvægustu trúarhátíð hennar.
Stór fjöldagröf var uppgötvuð í þorpinu Manhush skammt frá Mariupol í gær. Gröfin er sjáanleg á gervihnattamyndum og talið að hún geti verið allt að tuttugu sinnum stærri en fjöldagröfin sem fannst í borginni Bucha í byrjun mánaðar.
Pavlo Kyrylenko, héraðsstjóri í Donetsk, skrifaði á samfélagsmiðilinn Telegram að talið væri að gröfin geymdi líkamsleifar þúsunda almennra borgara.
Volodymyr Zelensky kveðst enn halda í vonina um að friður komist á og að lífið hafi betur gegn dauðanum, eins og hann orðaði það í ávarpi sínu í gærkvöld.