Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vinstrimenn geta ráðið úrslitum á sunnudaginn

Mynd með færslu
 Mynd: EPA-EFE
Luiz Inacio Lula da Silva, forsetaframbjóðandi og fyrrverandi forseti Brasilíu, hvetur franska kjósendur til að sigrast á stjórnmálaöflum lengst til hægri með því að flykkjast um Emmanuel Macron núverandi forseta. Stjórnmálaskýrendur telja að niðurstöður seinni umferðar forsetakosninganna séu í höndum vinstrimanna.

Lula skrifaði skilaboð sín á samfélagsmiðilinn Twitter. Þar sagði hann Marcon standa fyrir lýðræði og mannúð. Draumur lýðræðissinna um allan heim væri að losna við hatur og fordóma sem fylgi öfgahægristefnu. 

Lula er sjálfur vinstrimaður og studdi skoðanabróður sinn, Jean-Luc Melenchon, í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna. Melenchon varð þriðji með örlítið minna fylgi en Le Pen.

Lula sagði að framtíð lýðræðis í Evrópu og veröld allri væri í höndum franskra kjósenda. Skoðanakannanir sýna forskot Lula á Jair Bolsonaro núverandi forseta Brasilíu. Forsetakosningar fara fram þar í landi í október.

Skoðanakannanir í Frakklandi benda til að forskot Macrons á Marine Le Pen sé allt að fimmtán prósent en forsætisráðherrar Spánar og Portúgals og kanslari Þýskalands hvetja kjósendur til að velja Macron.

Flestar kannanir benda til að Macron fái 54 prósent atkvæða en Le Pen 46. Greinendur telja víst að niðurstöður forsetakosninganna á sunnudag séu í höndum vinstrisinnaðra kjósenda.

Fylgi vinstrimanna við Macron er þó hvergi nærri tryggt, þrátt fyrir setu hans sem efnahags- og fjármálaráðherra í ríkisstjórn sósíalistans Manuels Valls. Stjórnmálaskýrendur segja enn óljóst hvernig fylgi þeirra tíu frambjóðenda sem ekki hlutu brautargengi dreifist milli Macrons og Le Pen.

Þar liggja rúmlega tíu milljón atkvæði. Ákveði margir að hunsa kosningarnar, eða fleiri en kannanir benda til að styðja Le Pen, gæti það haft áhrif á niðurstöðurnar enda tiltölulega mjótt á munum þrátt fyrir allt.

AFP-fréttaveitan hefur eftir kjósandanum Zahra Nhili að reynslan sýni að Macron hallist frekar til hægri en vinstri og staðhæfir að í forsetatíð hans hafi ríkir auðgast enn og fátækir orðið snauðari.

Hún segist iðulega hafa verið hvött til að kjósa forsetann til að koma í veg fyrir kjör Le Pen. Nhili segist varla geta gert það nema kannanir sýni mögulegan sigur Le Pen.