Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tortryggni og skilningsleysi mætir oft hælisleitendum

22.04.2022 - 10:20
Mynd með færslu
 Mynd: Samsett mynd RÚV/RKÍ - RÚV/RKÍ
Hælisleitendur mæta oft tortryggni og skilningsleysi segir verkefnastjóri hjá Rauða krossinum. Það sé mikilvægt fyrir hælisleitendurna að finna að það sé fólk til staðar sem lætur sér annt um það.

Þórir Hall Stefánsson verkefnastjóri Rauða krossins segir að töluvert álag hafi verið í nokkuð langan tíma, en með stríðinu í Úkraínu hafi álagið aukist enn frekar. Undir Þóri og hans fólk heyrir félagsstarf hælisleitenda, sem miðar að því að draga úr einangrun þeirra og auka virkni þeirra. Hann segir það stóra áskorun fyrir fólk að flýja heimili sitt og þótt það sé gott að vera á Íslandi geti hælisleitendur lent í erfiðri stöðu, það tali ekki tungumálið og hafi ekkert bakland. Við það bætist viðmót sem afhjúpast reglulega.

„Þessu fólki, náttúrlega, mætir ákveðin tortryggni og skilningsleysi og maður getur yfirfært það á minnihlutahópa aðra og jaðarsetta hópa sem við sjáum reglulega og bara mjög nýlega núna. Þeim mætir þessi tortryggni það er það sem við í okkar verkefni erum dálítið að reyna að vinna á móti,“ sagði Þórir í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Hann vill þó ekki kalla þetta rasisma, þetta sé upplifun fólks og ýmislegt geti spilað þar inn í.  Hann segir fólk sem er í umsóknarferli búa við mikla óvissu, það viti ekki hve lengi það þarf að bíða né hver niðurstaðan verður, þetta geti verið áfall ofan á röð áfalla sem sem það hefur þegar orðið fyrir.

„Þannig að þetta er eitthvað sem við þurfum greinilega að vinna með hjá Rauða krossinum og við gerum það í okkar verkefni með því að búa til vettvang fyrir skjólstæðinga okkar, hælisleitendur í þessu tilfelli, og reyndar annað flóttafólk líka hvort sem það er komið með kennitölu eða ekki.“

Það sé mikilvægt fyrir hælisleitendurna að finna að það sé fólk til staðar sem lætur sér annt um það. Rauði krossinn er með þetta félagsstarf í Árskógum í Mjódd og í Reykjanesbæ og á næstunni stendur til að bæta við samfélagshúsinu á Vitatorgi í Reykjavík.  

„Og það er að sjálfsögðu gert sem svar við auknum fjölda flóttafólks frá Úkraínu en að sjálfsögðu, eins og allt sem við gerum, þá er það opið fyrir alla aðra hælisleitendur í raun og veru.“
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV