
Óttarr Proppé stýrir hópi um öryggi flóttabarna
Það er Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra sem þetta ætlar að gera, en hlutverk stýrihópsins verður að vakta stöðu barna sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd til að tryggja réttindi þeirra og velferð. Á heimasíðu stjórnarráðsins segir að á hverju ári komi mörg börn hingað til lands í leit að alþjóðlegri vernd og að gera megi ráð fyrir töluverðri fjölgun þeirra, en stór hluti þeirra sem hingað hafa leitað vegna stríðsins í Úkraínu séu börn. Börn á flótta séu einn viðkvæmasti hópurinn sem fyrirfinnst.
Stýrihópnum er ætlað að veita stjórnvöldum ráðgjöf um viðbrögð, aðstoð og móttöku. Með stofnun hópsins á að tryggja að viðbrögð stjórnvalda séu í samræmi við alþjóðlegar skuldbindingar. Fulltrúar hins opinbera sem að þessum málaflokki koma munu eiga fulltrúa í stýrihópnum sem og fagfólk af vettvangi og fulltrúar félagasamtaka. Óttarr Ólafur Proppé fyrrverandi alþingismaður og heilbrigðisráðherra mun leiða starf stýrihópsins og hefur hann störf 25. apríl næstkomandi.
Þá hefur mennta- og barnamálaráðuneytið gefið út leiðbeiningar til forsjáraðila barna og ungmenna frá Úkraínu um hvernig hefja skuli skólagöngu hérlendis.