Mynd: EPA-EFE - EPA

Athugið þessi frétt er meira en 4 mánaða gömul.
Loftárásir á Gaza og eldflaugaárásir á Ísrael
21.04.2022 - 00:30
Deilur og stríð · Erlent · eldflaugaárásir · Gaza · Hamas · Ísrael · Loftárásir · Palestína · Stjórnmál
Ísraelskar herþotur gerðu tvær árásir á Gaza-svæðið í kvöld. Árásunum var ætlað að bregðast við eldflaugaárásum Hamas-liða á ísraelsku borgina Sderot fyrr í dag. Hamas liðar svöruðu loftárásunum með því að skjóta fjórum flaugum að Ísrael.
Samkvæmt fréttum AFP-fréttaveitunnar af málinu ollu eldflaugarnar sem skotið var í dag engu tjóni en það var í annað sinn í þessari viku sem slíkum árásum var beint að Ísrael.
Hernaðararmur Hamas-liða, sem ráða ríkjum á Gaza skutu flugskeytum að þotum Ísraela. Ísraelsk hermálayfirvöld segja að loftvarnarbúnaður hafi stöðvað för flauganna sem skotið var að landinu nú eftir miðnættið.
Blóðugar róstur hafa staðið yfir í Ísrael og Palestínu undanfarinn mánuð. Fyrr í dag stöðvaði ísraelska lögreglan hópgöngu þjóðernissinna úr röðum gyðinga sem stefndu á inngöngu í múslimahverfi Jerúsalem-borgar. Lögregla óttaðist að til átaka gæti komið.