Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

„Þetta er með því alvarlegra sem ég hef séð"

20.04.2022 - 20:19
Drífa Snædal
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - Fréttir
Forseti Alþýðusambandsins segir að ekki hafi náðst samstaða allra í miðstjórn um að fordæma hópuppsagnir á skrifstofu Eflingar. Drífa Snædal hefur ekki tekið ákvörðun um það hvort hún sækist eftir endurkjöri í haust.

"Það var í sjálfu sér engin niðurstaða en við ræddum málin fram og til baka. Ef ég hefði skynjað að það væri órofa samstaða um að fordæma hópuppsagnir Eflingar hefði ég lagt slíka tillögu fram en það var ekki órofa samstaða um það", segir Drífa Snædal forseti ASÍ.

Er hreyfingin þá klofin?

„Hreyfingin er ósammála en hún hefur oft verið það líka áður. Ég hefði viljað óska þess að miðstjórn ASÍ hefði getað verið algjörlega sammála um það að fordæma hópuppsagnir."

Var mikill ágreiningur?

„Sitt sýndist hverjum en ég ætla bara að tala fyrir mig og ætla ekki að hafa eftir hvað aðrir sögðu á þessum fundi. Ég get sagt fyrir mig að ég mat stöðuna svo að það var ekki full samstaða um þetta. Í svona málum vill maður ná fullri samstöðu áður en nokkuð er gefið út.“

Kjarasamningar eftir korter og hreyfingin er klofin í herðar niður?

Að sögn Drífu er þetta ekki í fyrsta sinn sem hreyfingin er klofin en hún segir að alltaf hafi hún einhvern veginn alltaf komist í gegnum kjarasamninga. Hún segist viss um að svo verði einnig núna.

„Það koma oft upp atriði og sífellt sem þarf einhvern veginn að vinna úr en þetta er með því alvarlega sem ég hef séð.“

Getur hreyfingin komið samhent saman þegar þarf að berjast fyrir bættum kjörum almennings?

„ASÍ hefur ekki alltaf verið samstíga í aðdraganda kjarasamninga. Það hafa verið ákveðin bandalög og hópar hér og þar.  Það verður þannig áfram. Það er ágætt að hafa í huga að samningarétturinn er hjá hverju aðildarfélagi fyrir sig. Þau ákveða svo að framselja sitt samningsumboð til landssambanda ekki til ASÍ. Það er ferli er bara í gangi og svo sjáum við til hverning blokkirnar liggja eftir það".

Er ásættanlegt fyrir þig að starfa í þessu eða viltu gera eitthvað annað?

„Ég hef ekki tekið ákvörðun um það hvort ég starfa áfram, það er þing í október og ég tek mér þann tíma sem ég þarf hvort ég bjóði mig fram eða ekki".

Er þetta eins spennandi og það var þegar þú komst inn í hreyfinguna?

"Það er alltaf spennandi að vera í hringiðunni en auðvitað þarf að meta það á hverjum tíma hvort það er þess virði".

Arnar Björnsson